19. maí 2011

Framboð til formanns Landverndar

Ég hef sent skrifstofu Landverndar tilkynningu um framboð mitt til formanns samtakanna á aðalfundi þeirra í næstu viku. Á næstu misserum mun reyna mjög á umhverfisverndarhreyfinguna í landinu og mig langar til að taka virkan þátt í þeirri baráttu. Ég nefni sérstaklega eftirfarandi atriði sem munu reyna á krafta Landverndar og annarra umhverfisverndarhreyfinga:

 • Verið er að leggja lokahönd á Rammaáætlun og stefnt er að því að Alþingi samþykki hana næsta haust. Landvernd þarf að standa vörð um áherslur náttúruverndar í þeirri framvindu.
 • Efnahagskreppa og verðhækkanir á orku og matvælum hafa leitt til aukinnar ásóknar í auðlindir. Landvernd þarf að vera málsvari hófsamrar og sjálfbærrar nýtingar á auðlindum, hvort sem um ræðir jarðhita, vatnsorku, jarðveg, vatn, fisk eða ósnortin víðerni.
 • Unnið er að tillögum að breytingum á náttúruverndarlögum. Gera má ráð fyrir miklum átökum um tillögurnar þegar þær verða lagðar fram. Landvernd þarf að taka virkan þátt í þeirri umræðu sem þá mun skapast og vinna aukinni náttúruvernd fylgi meðal almennings og stjórnmálamanna.
 • Í samfélaginu eru gerðar kröfur um aukið lýðræði. Landvernd á að leiða umræðu um aukið lýðræði í skipulagsmálum svo almenningur geti haft raunveruleg áhrif á ákvarðanir um stóriðju og virkjanir.
 • Stjórnvöld hafa endurskoðað námskrár allra skólastiga þar sem sjálfbær þróun er eitt af sex meginstefjum. Landvernd á að stuðla að því að umhverfisvernd og sjálfbær þróun fái veigamikið hlutverk í skólum, meðal annars í gegnum Skóla á grænni grein.
 • Efnahagshrunið sýndi fram á að stjórnvöld horfðu á ranga mælikvarða við stjórn samfélagsins. Landvernd á að hvetja til þess að áherslum verði breytt og frammistaða þjóðarinnar verði mæld á fleiri vegu en með hagvexti, t.d. með vistspori og sjálfbærni- og framfarastuðlum.
 • Hækkun olíuverðs mun leiða til mikilla breytinga á samgönguvenjum þjóðarinnar. Landvernd á að krefjast stórsóknar á sviði almenningssamgangna og hjólreiða.
 • Heilsu og hagsmuna almennings hefur ekki verið nægilega gætt í gegnum tíðina hjá stjórnsýslu umhverfismála. Nýleg dæmi um díoxínmengun frá sorpbrennslustöðvum og brennisteinsvetnismengun frá jarðvarmavirkjunum sýna fram á það. Landvernd á að vera kröftugur málsvari almennings á þessu sviði.
 • Stjórnlagaráð vinnur að endurskoðun á stjórnarskránni. Landvernd á að hvetja til þess að í tillögum ráðsins verði að finna vandað stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd.

Verði ég kosinn formaður stjórnar Landverndar mun ég einnig beita mér fyrir fjölbreyttara starfi á vegum samtakanna og leggja mig allan fram við að fá sem flesta félagsmenn til að taka virkan þátt í starfi þeirra. Ég nefni nokkur dæmi sem ég vil leggja áherslu á í þessum efnum:

 • Ég vil að innan Landverndar starfi ungliðahreyfing sem gefi ungu fólki á framhaldsskóla- og háskólaaldri tækifæri til að beita sér fyrir málstað umhverfisverndar.
 • Ég tel kröftum umhverfisverndarhreyfingarinnar í landinu dreift of víða. Þess vegna vil ég efla samstarf Landverndar við landshlutabundin og málefnatengd umhverfisverndarfélög.
 • Ég vil að rödd Landverndar heyrist hátt og skýrt. Þess vegna þurfa samtökin að verða fyrirferðarmeiri á netinu og í fjölmiðlum. Við eigum ekki að óttast það að vera hávær.

Ég hef lengi haft áhuga á umhverfismálum. Fyrstu afskipti mín af náttúruverndarbaráttu voru líklega þegar ég dreifði bæklingum gegn virkjun á Eyjabökkum í verslunarmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Ég fjallaði um umhverfismál í lokaritgerðum mínum í sagnfræðinámi við Háskóla Íslands og í meistaranámi í umhverfisfræðum við Edinborgarháskóla. Árið 2007 tók ég þátt í stofnun Félags umhverfisfræðinga á Íslandi og hef meðal annars verið formaður félagsins. Ég á einnig sæti í nefnd Neytendasamtakanna um matvæli, umhverfismál og siðræna neyslu.

Þegar ég kom heim úr námi árið 2006 réð ég mig í starf upplýsingafulltrúa umhverfisráðuneytisins og gegndi því þangað til í apríl síðastliðinn. Meðfram starfinu kenndi ég umhverfisstjórnmál við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst. Nú starfa ég við kynningar- og vefstjórn hjá Háskóla Íslands. Í umhverfisráðuneytinu bar ég meðal annars ábyrgð á samskiptum við félagasamtök á sviði umhverfismála, var formaður Umhverfisfræðsluráðs og fulltrúi ráðuneytisins í stýrihópi Skóla á grænni grein. Þá var ég einnig formaður starfshóps sem kannaði rekstrargrundvöll félagasamtaka á sviði umhverfismála og lagði fram tillögur um eflingu starfsemi og fjárhags félaganna. Ég öðlaðist því góða þekkingu á starfsemi umhverfisverndarfélaga í landinu í gegnum starf mitt í umhverfisráðuneytinu.

Ég hvet alla til að mæta á aðalfund Landverndar í Nauthóli við Nauthólsvík, fimmtudaginn 26. maí kl. 16:00, til að móta framtíð félagsins.