29. maí 2011

Áfangaskjal Stjórnlagaráðs um umhverfismál

Stjórnlagaráð hefur lagt fram áfangaskjal um mannréttindakaflann, en í honum er að finna ákvæði um umhverfismál í greinum 21, 22, 23 og 24. Ég hef áður bloggað um þær tillögur sem Stjórnlaganefndin lagði fyrir Stjórnlagaráð og mér þótti heldur íhaldssamar. Þess vegna sendi ég ráðinu tillögur að breytingum.

Tillögur í áfangaskjali Stjórnlagaráðs virðast vel viðunandi. Í 21. grein segir að nýta beri náttúruauðlindir Íslands á sjálfbæran hátt. Þetta er mikilvægt ákvæði, sérstaklega í ljósi umgengni okkar við auðlindir lands og sjávar og umræðu um aukna og ósjálfbæra nýtingu jarðvarma.

Í 22. grein segir svo: ,,Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda. " Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um svona ákvæði. Friðhelgi er sterkt orð samkvæmt orðabók: ,,friðlýstur, sem ekki má ráðast á; sem ekki má skemma eða hreyfa við." Þrátt fyrir að vera mikill stuðningsmaður náttúruverndar þá finnst mér þessi yfirlýsing óraunhæf. Eða er stjórnlagaráð að leggja til að ekki megi hreyfa við náttúru Íslands héðan í frá? Svo er skil ég ekki hvernig hægt er að kveða á um það í stjórnarskrá hvað hver og einn ber virðingu fyrir eða verndar. Restin af 22. grein hljóðar svo: ,,Nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar skal haga svo að þær skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða sé virtur. Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum. Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa." Þetta hljómar allt vel.

23. greinin hljóðar svo: ,,Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það. Með lögum skal tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið. Réttur almennings til aðildar að dómsmálum varðandi mikilvægar ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir og umhverfi Íslands skal tryggður með lögum." Það var gott hjá Stjórnlagaráði að leggja til frumkvæðisskyldu stjórnvalda í þessum efnum. Það hefði ekki verið nóg að tryggja rétt almennings til upplýsinga þegar almenningur er yfirleitt grunslaus um mengun í umhverfi sínu. Orðalagið að tryggja rétt almennings til þátttöku í undirbúningi ákvarðana er heldur loðið og líklega ávísun á óbreytt ástand í þeim efnum. Ég hefði viljað sjá ráðið ganga lengra í lýðræðisátt í þessum efnum, t.d. með tillögu um íbúakosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur um stórframkvæmdir. Annað er í lagi að mínu mati.

24. greinin hljóðar svo: ,,Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu. Við nýtingu dýrastofna og annars lífríkis skal gæta virðingar fyrir öllum lifandi verum." Þetta hljómar ágætlega, en sem fyrr velti ég því fyrir mér hvort hægt sé að krefjast þess í stjórnarskrá að borin sé virðing fyrir einhverju ákveðnu.

Eins og ég benti á í erindi mínu til Stjórnlagaráðs þá þætti mér eðlilegt að fjalla um mikilvægar meginreglur umhverfisréttarins í stjórnarskrá, t.d. mengunarbótaregluna og varúðarregluna. En ráðið hefur ákveðið að minnast ekki á þessi hugtök í áfangaskjalinu. Ráðið tekur heldur ekki undir tillögu mína um að gera t.d. hálendið eða ósnortin viðerni að griðasvæði með ,,forewer wild" ákvæði.

Í heildina litið sýnist mér Stjórnlagaráð vera á réttri braut þótt ég hefði viljað sjá það ganga lengra í einstaka ákvæðum.