1. apr. 2011

Útvarpsþáttur um umhverfismál í loftið á sunnudag

Þetta bloggsvæði færir út kvíarnar á sunnudag þegar ég fer af stað með útvarpsþátt um umhverfismál undir nafninu Grænmeti. Þættinum er útvarpað á Útvarpi Sögu (fm 99,4) á sunnudagsmorgnum milli klukkan tíu og ellefu. Fyrsti þátturinn verður fjölbreyttur. Fjallað verður um mengunarmál, lýðræðislega þátttöku almennings við ákvarðanir um virkjanaframkvæmdir og áhrif loftslagsbreytinga á sjófugla og lífríkið í hafinu.

Fjórir gestir mæta í hljóðstofu, þau Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur og doktorsnemi í spendýravistfræði, Hafdís Hafliðadóttir, sviðsstjóri skipulagssviðs Skipulagsstofnunar og Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands. Þá verða einnig spiluð viðtöl við Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðing, Kristínu Haraldsdóttur, forstöðumann Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og Ragnheiði Þorgrímsdóttur, formann Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð.

Það er því full ástæða til að stilla á fm 99,4 klukkan tíu að morgni næstkomandi sunnudags og hlusta á fróðlega og fjölbreytta umræðu um umhverfismál. Svo verður að sjálfsögðu hægt að hlusta á þáttinn hér á síðunni og á fésbókarsíðu þáttarins. Áhugasamir geta tekið forskot á sæluna og hlustað hér á viðtal við Ragnheiði Þorgrímsdóttur um mengunarmál í Hvalfirði.