11. apr. 2011

Hverahlíðavirkjun er óarðbær

Hverahlíðavirkjun er óarðbær og þess vegna hafa lífeyrissjóðirnir ekki áhuga á því að kaupa hana af Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta kom fram í máli Guðmundar Gunnarssonar, formanns Rafiðnaðarsambands Íslands, í þættinum hjá mér á sunnudag.

Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna voru nýverið kallaðir til þegar fréttist að Orkuveitan væri því sem næst gjaldþrota. Þá sögðu þeir sjóðina alltaf opna fyrir góðum fjárfestingakostum, ekki síst í orkugeiranum, og Hverahlíðavirkjun væri mjög ofarlega á blaði. Nú virðast sjóðirnir hafa lokið við athugun á þessum fjárfestingakosti og Guðmundur segir að miðað við þær upplýsingar sem hann hafi þá sé virkjunin óarðbær, bæði vegna lélegs samnings Orkuveitu Reykjavíkur við Norðurál og vegna aukinnar kröfu um hreinsun á brennisteinsvetni í útblæstri.

Það virðist því hafa verið rétt sem kom fram í fréttaskýringu Morgunblaðsins fyrir nokkru að Orkuveitan vilji losna undan orkusölusamningi við Norðurál vegna þess að fyrirtækið hefði lítið sem ekkert upp úr viðskiptunum. Og þetta gefur til kynna að orkufyrirtækjunum hafi kannski tekist að koma út á sléttu í rekstri jarðvarmavirkjana ef þau fengu að blása brennisteinsvetni takmarkalaust yfir íbúa höfuðborgarsvæðisins, Hveragerðis og nágrennis. Það er nú ekki beint í anda umhverfisvænnar orkuframleiðslu.