14. apr. 2011

Græninginn Jónas Hallgrímsson

Þessa dagana les ég ævisögu Jónasar Hallgrímssonar eftir Pál Valsson í þeim tilgangi að kynnast betur afstöðu hans til náttúrunnar. Ljóðin eru auðvitað ágætis vitnisburður um hana, en þau segja líklega ekki alla söguna. Um miðja bók segir Páll Jónas hafa verið einn hinna fyrstu umhverfisverndarsinna á Íslandi sem hafi krafist þess að menn umgengjust náttúruna af virðingu og auðmýkt.

Á bls. 187 segir Páll frá því þegar Jónas er kominn austur að Geysi 16. ágúst 1837 og bíður þess, fullur eftirvæntingar, að sjá hverinn gjósa: ,,Ekki hvarflar að náttúruskoðaranum að beita brögðum til að flýta gosi og spara þannig tíma, þótt orð hans sýni að slíkt hefur fjarri því verið fátítt: ,,Ég vissi að unnt væri að erta Strokk og láta hann gjósa með því að kasta grjóti ofan í svelginn. En það er ósæmilegt athæfi og vildi ég ekki gjöra það samvisku minnar vegna." Jónas fer hörðum orðum um þessa illu umgengni við náttúruna, um leið og hann lýsir því að brún Strokks sé nú horfin að mestu: ,,Útlendingunum sem þangað komu þótti gaman að mölva hana og hrinda molunum ofan í hverinn til þess að flýta fyrir gosi. Og svo langt gengur þessi villimennska að herramaður nokkur á ferð - enskur barón að sögn - lét meira að segja brjóta fyllu úr brún gospípunnar að innanverðu.""

Þannig að Jónas var græningi, kannski sá fyrsti hér á landi, sem vildi umgangast náttúruna af virðingu og auðmýkt. En það er mér hins vegar ráðgáta hvernig svona næmur sveitapiltur gat verið svona andstyggilegur við greyið hann Sigurð Breiðfjörð.