15. mar. 2011

Sneið af lottó-kökunni renni til umhverfismála

Ég las á dv.is að Ögmundur innanríkisráðherra ætlar að skipa starfshóp til að fara yfir skiptingu lottótekna með mögulega endurskoðun í huga. Meðal þess sem verður kannað er að menning og listir njóti tekna af lottóinu. Ég sendi Ögmundi tölvupóst og benti honum á starfshópurinn þyrfti líka að kanna möguleikann á því að félagasamtök á sviði umhverfismála fái sneið af lottó-kökunni. Ekki veitir af.

Árið 2009 sat ég í starfshópi sem Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skipaði til að kanna rekstrargrundvöll umhverfisverndarsamtaka. Í stuttu máli komumst við að þeirri niðurstöðu að fjárhagslegur rekstrargrundvöllur þessara félaga væri sáralítill og þau væru ekki fær um að sinna hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Það töldum við óásættanlegt í ljósi mikilvægis þeirra, sem meðal annars er getið í lögum, áætlunum og alþjóðlegum samningum. Í Árósasamningnum frá 1998 segir að veita skuli viðeigandi stuðning til félaga sem stuðla að verndun umhverfisins og í 27. kafla Dagskrár 21 er fjallað um mikilvægi þess að efla félagasamtök, þar á meðal fjárhagslega. Félögunum er falin ábyrgð með lögum, til dæmis lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um náttúruvernd. Ráðuneyti og Alþingi óska reglulega eftir umsögnum frá þessum félögum um drög að frumvörpum og áætlunum. Þá er þeirra víða getið í stefnumótandi áætlunum stjórnvalda, þar á meðal áætlunum um sjálfbæra þróun, loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni.

Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld hefðu þannig viðurkennt mikilvægt hlutverk þessara félagasamtaka. Fjárveitingar hefðu hins vegar ekki fylgt aukinni ábyrgð. Þess vegna taldi starfshópurinn bæði eðlilegt og æskilegt að stjórnvöld beittu sér fyrir bættum rekstrargrundvelli þessara félaga og samtaka, líkt og gert hefði verið á sviði menningar og íþrótta. Vonandi bregst Ögmundur vel við tillögu minni og lætur kanna möguleikann á því að umhverfisverndarsamtök fái sneið af lottó-kökunni.