22. mar. 2011

Hljóðlát græn bylting tveggja kvenna

Umhverfismerkið Svanurinn er í mikilli sókn hér á landi. Í könnun sem gerð var árið 2006 sagðist helmingur aðspurðra þekkja merkið en í nýlegri könnun hafði þetta hlutfall hækkað í 73%. Í könnun 2009 líkaði 8% aðspurðra vel við umhverfismerkið en 46% segjast þeirrar skoðunar nú. Vinsældir vörumerkisins aukast því hratt og það verður sífellt eftirsóttara fyrir fyrirtæki að bjóða upp á Svansmerktar vörur og þjónustu.

Að mínu mati eru tvær meginástæður fyrir þessari jákvæðu þróun. Annars vegar fékk Umhverfisstofnun fyrst áhuga á Svaninum fyrir fáum árum. Líklega var það ekki fyrr en árið 2008, þegar Kristín Linda Árnadóttir var ráðin forstjóri stofnunarinnar. Kristín Linda er með meistaranám í umhverfisfræðum frá Háskólanum í Lundi og hefur því þekkt kosti Svansmerkisins og þá möguleika sem í því felast. Síðan hún tók við starfinu hefur Umhverfisstofnun eytt miklum kröftum í að auka vinsældir merkisins, jafnt hjá fyrirtækjum og neytendum.

Hin ástæðan fyrir auknum vinsældum Svansins er stefna ríkisstjórnarinnar um vistvæn innkaup sem Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, fékk samþykkta árið 2009 með harðfylgi. Íslenska ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir meira en 100 milljarða króna á ári. Þegar svo stór kaupandi tekur upp umhverfisstefnu þá leggja fyrirtæki sig öll fram við að bjóða upp á vistvænar vörur og þjónustu. Það smitar út frá sér og fleiri og fleiri umhverfismerktar vörur rata í hillur verslana. Það eykur síðan áhuga og þekkingu neytenda á umhverfismerkjum.

Auknar vinsældir Svansmerkisins meðal fyrirtækja og neytenda benda til þess að nú eigi sér stað hljóðlát græn bylting hér á landi að undirlagi tveggja kvenna.