13. feb. 2011

Hversu margir hafa fengið vinnu við lagningu suðvesturlínu?

Haustið 2009 óskaði umhverfisráðherra eftir því við Skipulagsstofnun að hún tæki til skoðunar hvort meta ætti sameiginlega umhverfisáhrif suðvesturlínu, jarðvarmavirkjana og álvers í Helguvík. Ráðherrann taldi að það gæti þjónað hagsmunum almennings betur að hafa allar upplýsingar á borðinu þegar ákvarðanir um framkvæmdir yrðu teknar, í stað þess að byggja ákvarðanir á takmörkuðum upplýsingum. Þessari hugmynd reiddust Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og sveitarstjórnarmenn mjög og þingmenn fóru í ræðustól Alþingis og kölluðu umhverfisráðherra hryðjuverkamann. Reiðin fékk svo útrás í fjölmiðlum í heilan mánuð, eða allt þar til Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að ekki yrði farið í sameiginlegt mat.
Mér taldist til að á þessu tímabili hafi Rúv tekið 24 viðtöl við fjórtán stuðningsmenn stóriðju en einungis eitt viðtal við einn andstæðing stóriðjuuppbyggingar! Í flestum þessum viðtölum var umhverfisráðherra sakaður um að tefja lagningu suðvesturlínu og bera þannig ábyrgð á atvinnuleysi þúsunda manna á Suðurnesjum. Áróðursherferðin var svo fullkomnuð þegar fyrirtæki á Suðurnesjum splæstu í lesnar auglýsingar á Rúv þar sem atvinnuleysi á Suðurnesjum var sagt í boði umhverfisráðherra.
Nú er rúmt ár liðið frá því að málið fór af borði umhverfisráðherra og ekkert varð af sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum. Hversu margir hafa fengið vinnu við lagningu suðvesturlínu síðan þá? Enginn. Það var öll atvinnusköpunin sem umhverfisráðherra stöðvaði.

Þetta rifja ég upp vegna þess að fjölmiðlar og álitsgjafar eru núna uppfullir af nákvæmlega sama áróðri og var viðhafður haustið 2009. Þeir láta gabba sig aftur og aftur með sömu gömlu frösunum.