16. feb. 2011

Hjól atvinnulífsins snúast þrátt fyrir allt

Síðastliðið haust voru neikvæðar raddir í atvinnulífinu orðnar mjög háværar og gamla klisjan um að koma þyrfti hjólum atvinnulífsins aftur af stað átti greiða leið í fjölmiðla. Það átti greinilega að brjóta niður það sem var eftir af sjálfstrausti þjóðarinnar svo að krafan um stóriðju ætti greiðari leið að eyrum fólks. Þá birtist Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, eins og frelsandi engill í útvarpsviðtali og sagði sig starfa sólarmegin í atvinnulífinu. Í nýsköpunarfyrirtækjum væri verið að ráða fólk, skapa gjaldeyri og afla erlendra fjárfestinga. Ég var svo hrifinn af málflutningi Helgu að ég hóf að líta sérstaklega eftir jákvæðum fréttum úr atvinnulífinu og birti þær á facebook undir titlinum sólarmegin í atvinnulífinu.
Ég hætti eftir tuttugu færslur og hafði ekki hugsað mér að halda áfram. Þeim sem sakna orðið jákvæðra frétta skal bent á heimasíðu iðnaðarráðuneytisins sem birtir orðið eina jákvæða frétt úr atvinnulífinu á dag undir yfirskriftinni hækkandi sól. En hér skal kvittað fyrir sólarmegin í atvinnulífinu með því að birta færslurnar tuttugu.

1. Lífdísilverksmiðjan Orkey tók til starfa á Akureyri. Verksmiðjan vinnur eldsneyti úr dýrafitu, úrgangssteikingarolíu og öðrum úrgangi.
2. Líftæknifyrirtækið Genís vinnur að framleiðslu vöru úr rækjuskel sem notuð er við bæklunarskurðlækningar.
3. Íslendingar hafa fengið aukið hlutverk við flutninga til og frá Grænlandi.
4. Alcan fjárfesti fyrir 86 milljarða og skapaði 1.300 ársverk við framkvæmdir.
5. Actavis jók framleiðslugetu sína um 50% og fjölga átti starfsfólki um 50 á síðasta ári.
6. Borg brugghús bruggar bjór úr íslensku byggi.
7. Rafmagnsverkfræðingur á Egilsstöðum rekur fyrirtæki sem sérhæfir sig í orkusparnaði víða í Evrópu og stýrir t.d. ljósum í nokkrum götum í Amsterdam.
8. Netspilavíti flytja starfsemi sína til íslenska gagnaversins Thor Data Center.
9. Starfsfólki Icelandair verður fjölgað um 200.
10. CCP réð 200 starfsmenn.
11. Ný fóðurverksmiðja Líflands á Grundartanga var tekin í gagnið.
12. Remake Electric átti í viðræðum við sex stærstu framleiðendur raföryggisbúnaðar í heiminum um sölu rafskynjara sem fyrirtækið þróaði.
13. Íslenska kvenfatafyrirtækið ELM opnaði verslun í Osló.
14. Fafu-toys framleiðir leikföng fyrir börn með hugmyndaauðgi og sköpun að leiðarljósi, ásamt vistvænni, lífrænni og siðgæðisvottaðri framleiðslu. Leikföngin eru seld til skóla í Evrópu.
15. Jákvæðara og heilbrigðara yfirbragð yfir fiskeldi hér á landi en verið hefur lengi.
16. Videntifier forensic framleiðir hugbúnað sem greinir ólögleg myndbönd. Hann er notaður hjá lögreglunni á Ítalíu og í Danmörku og viðræður standa yfir við lögregluna í Bandaríkjunum.
17. Carbon Recycling reisir eldsneytisverksmiðju við Svartsengi.
18. Kerecis þróar grisjur úr þorskroði.
19. Locatify hlaut norrænan styrk til að smíða nýtt leikjakerfi fyrir snjallsíma.
20. Nikita selur föt í um 1.500 verslunum í yfir 30 löndum.

Ég geri ekki lítið úr atvinnuleysi hér á landi og veit að af þess sökum eiga margir erfiða daga. En við megum samt ekki líta algjörlega framhjá því að kraftur og hugmyndaauðgi leynast víða í atvinnulífinu. Hjól atvinnulífsins snúast þrátt fyrir allt.