21. feb. 2011

4% fyrirtækja telja mestu tækifærin í áliðnaði, 2,1% í virkjunum

Viðskiptaráð Íslands gerði nýverið könnun á viðhorfi 720 forsvarsmanna stærri fyrirtækja hér á landi. Niðurstaðan er meira en lítið áhugaverð. Forsvarsmennirnir voru spurðir hver væru tvö mestu tækifærin til verðmætasköpunar í íslensku atvinnulífi á næstu tíu árum. Flestir, eða 38%, nefndu ,,nýtingu orkuauðlinda/orkuauðlindir/hækkun orkuverðs." Við fyrstu sýn virkar þetta eins og hefðbundin stóriðjustefna. En þegar nánar er að gáð telja einungis 4,1% að mesta tækifærið til verðmætasköpunar sé falið í ,,áliðnaði/stóriðju" og 2,1% í virkjunum. Það gæti verið vísbending um að þessi 38% hafi helst haft hug á ,,hækkun orkuverðs" þegar þeir völdu þann svarmöguleika.

Þessi niðurstaða könnunar Viðskiptaráðs bendir til þess að talsmenn hagsmunasamtaka atvinnulífsins gangi ekki í takt við meginþorra forsvarsmanna atvinnulífsins með áherslu sinni á álver og virkjanir.