19. jan. 2011

Verðtrygging hækkaði lán úr 6.800 vinnstundum í 9.300 á 13 árum

Egill Helgason átti fróðlegt samtal við Elías Pétursson í Silfrinu á sunnudag. Þar fjallaði Elías meðal annars um íslenska bóluhagkerfið, hagvaxtarhyggjuna og verðtrygginguna.
Hann vakti athygli á mjög áhugaverðri mælingu á verðtryggingunni þegar hann reiknaði húsnæðislánið sitt í vinnustundum. Húsnæðislán sem hann tók árið 1998 var 6.800 vinnustundir í upphafi en stendur nú í 9.300 vinnustundum, miðað við það sem hann hefur þegar greitt af láninu og eftirstöðvar. Þannig hefur verðbólgan hækkað langt umfram launin. Þeir sem verja verðbólguna fullyrða gjarnan að launahækkanir haldi í við verðbólguna og þess vegna sé verðtryggingin alls ekki óeðlileg. Útreikningur Elíasar sýnir það svart á hvítu að slíkar fullyrðingar standast ekki skoðun, þvert á móti veldur verðtryggingin stórkostlegri kjaraskerðingu hjá almennum launþegum.