23. jan. 2011

Lágkúrulegar dylgjur Sigurðar Kára

Umræða á Alþingi mætti stundum vera vandaðri, en þessi lágkúrulegi málflutningur Sigurðar Kára Kristjánssonar um meinta njósnatölvu slær líklega öll fyrri met: ,,Það vekur auðvitað grunsemdir, svo það sé bara sagt, að þessi tölva hafi fundist í skrifstofuhúsnæði Hreyfingarinnar, ekki síst vegna tengsla eins hv. þingmanns við vef sem hefur það að markmiði að birta illa fengin gögn. Ég ætla ekki að fella neina dóma eða fullyrða neitt í þessu máli en það gerir málið allt hið tortryggilegasta."
Svona dylgjar þingmaðurinn úr ræðustól Alþingis þrátt fyrir að lögregla hafi ekkert í höndunum sem bendir til þess að umrædd tölva hafi verið notuð til njósna. Það er merkilegt hvað við kjósendur virðumst stundum gera litlar kröfur um að á Alþingi setjist fólk sem er sæmilega vant að virðingu sinni.
Það var meiri reisn yfir ræðu Birgittu Jónsdóttur þegar hún svaraði Sigurði með ljóði eftir Pál J. Árdal sem hefst svona:
Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.