22. jan. 2011

Hollustumerki í Danmörku, Svíþjóð og Noregi - hvers vegna ekki hér?

Ég sat fund hjá Neytendasamtökunum í gær þar sem meðal annars var rætt um hollustumerkið skráargatið. Merkið er trygging neytenda fyrir því að vara sé sú hollasta sem í boði er í hverjum vöruflokki og auðveldar þannig aulum eins og mér sem nenna sjaldnast að lesa vörulýsingar að velja holla matvöru.
Skráargatið er að finna á dönskum, sænskum og norskum vörum en íslenskir framleiðendur virðast hins vegar ekki hafa tekið skráargatinu opnum örmum. Hvers vegna veit ég ekki, en vonandi er það ekki vegna þess að þeir standast yfir höfuð ekki skilyrði skáargatsins um magn sykurs, salts, fitu og trefja.
Hér virðist ekki veita af svona merki, eða var ekki í fréttum fyrir skömmu að við værum fjórða feitasta þjóð í heimi. Enda hafa Neytendasamtökin mælt með innleiðingu skráargatsins og hafa sent sjávar- og landbúnaðarráðherra erindi þess efnis árið 2005 og aftur í fyrra. Talsmaður neytenda og Lýðheilsustöð hafa líka mælt með innleiðingu merkisins. Og það sama gerði starfshópur sem forsætisráðherra skipaði árið 2005 til að vinna tillögur að aðgerðum til að efla lýðheilsu hér á landi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Eftir hverju er þá verið að bíða?