28. jan. 2011

Áreiðanlegu áttmenningarnir semji stjórnarskrá sem borin yrði undir þjóðina

Æi, nennum við að kjósa aftur til stjórnlagaþings? Þingið var alveg málið, ég hafði fyrir því að kynna mér frambjóðendurna, velja 25 þeirra og fara á kjörstað. Var svo prýðilega sáttur við niðurstöðuna og reyndi að horfa á jákvæðu hliðarnar þegar kom að kjörsókninni. Við vorum jú, aldrei þessu vant, að gera eitthvað frumlegt og skapandi.
En nú hefur Hæstiréttur ákvarðað þetta ógilt. Ég tek undir með þeim sem fara með klisjuna um að menn deili ekki við dómarann. Ég er nú reyndar á því að menn eigi að deila við hvern sem er ef þeir telja sig órétti beitta. En í því andrúmslofti vantrausts og tortryggni sem nú ríkir þá höfum við ekki gott af því að grafa undan enn einni stoðinni í samfélaginu með áskökunum um spillingu og óheiðarleika. Kannski eru þetta íhaldsmenn upp til hópa sem skipa réttinn, jafnvel klíkubræður af hæstu gráðu. En þarna situr líka vammlaust fólk, eins og t.d. Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis.

En hvað tekur nú við? Kjósa aftur? Nei, varla. Áhuginn var nú ekki mikill í fyrstu tilraun, hann yrði væntanlega enn minni í töku tvö. Umboð þingsins yrði lítið, líka í huga margra þeirra sem hafa stutt þessa tilraun hingað til. En að skipa þessa 25 í nefnd til að vinna þessa vinnu? Nei, varla. Mér heyrðist í kvöldfréttum að flestir kjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi hefðu lítinn áhuga á að fara þá leið og starfa þannig í umboði þings en ekki þjóðar. En hvað þá?
Ég er á því að nú eigi að víkja stjórnlagaþinginu til hliðar og greiða þeim skaðabætur sem töpuðu fé á framboði til þingsins. Í stað þingsins verði skipuð nefnd átta valinkunnra einstaklinga sem verði falið að semja frumvarp sem yrði lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum 2012. Í atkvæðagreiðslunni mætti jafnvel gefa þjóðinni tækifæri til að kjósa um einstakar greinar, t.d. varðandi þjóðkirkjuna. Alþingi myndi síðan ljúka verkinu og leggja fram frumvarp í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Kostirnir við að fara þessa leið eru þeir að starf nefndarinnar gæti tekið mun skemmri tíma en starf stjórnlagaþings, ríkissjóður myndi spara fé og þjóðin yrði einu þrætueplinu fátækari. Þá er bara fyrir Jóhönnu forsætis að fara á ja.is og fletta upp Páli Skúlasyni, Katrínu Fjeldsted, Jóni Kristjánssyni, Salvöru Nordal, Þorvaldi Gylfasyni, Herði Bergmann, Elínu Björgu Jónsdóttur og Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur, a.k.a. áreiðanlegu áttmenningarnir.