7. des. 2010

Reginhneyksli Einars K. Guðfinnssonar og Árna Finnssonar

Nú hafa fjölmiðlar fjallað rækilega um samskipti Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands, við bandaríska sendiráðið. Meðal annars hefur Einar K. Guðfinnsson verið dreginn að hljóðnemanum til að fordæma framferði Árna með orðum eins og reginhneyksli. Þó að ég sé ósammála Einari þá er þetta hans skoðun og honum er frjálst að hafa hana. En er það ekki furðulegt að fréttamönnum detti í hug að leita álits þriðja aðila á þessu smámáli á meðan sáralítið hefur verið fjallað um að erlend stórfyrirtæki í áliðnaði fengu bandaríska diplómata hér á landi til að reyna að hafa áhrif á skattastefnu íslenskra stjórnvalda? Í því máli hefur enginn stjórnmálamaður verið dreginn að hljóðnemanum til að lýsa hneykslan sinni á framferði álfyrirtækjanna eða sendiráðsins. Hvers vegna ekki? Nú eru hvalveiðar mjög smávægilegar í samanburði við hlut álvera í íslenska hagkerfinu. Þannig að undir eðlilegum kringumstæðum hefði kalt mat fjölmiðla átt að leiða til mikillar umfjöllunar um tilraunir bandaríska sendiráðsins til að hafa áhrif á mikilvægt innanríkismál. Að minnsta kosti meiri umfjöllunar en spjall Árna við sendiherrann hefur fengið. En eins og svo oft áður gera fjölmiðlar aukaatriði að aðalatriði og öfugt.