1. des. 2010

Mikilll meirihluti stjórnlagaþings styður umhverfisverndarákvæði

Fimmtán af 25 kjörnum fulltrúum til stjórnlagaþings svöruðu könnun Félags umhverfisfræðinga um afstöðu þeirra til umhverfisverndarákvæðis á þá veru að þeir væru því fylgjandi. Könnunin var gerð í aðdraganda kosninganna og alls svöruðu 250 frambjóðendur því til að þeir væru fylgjandi umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá. Af þeim 250 náðu eftirfarandi 15 kjöri:

Andrés Magnússon, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðsson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson.

Ætla má af kynningarefni annarra kjörinna fulltrúa á stjórnlagaþingið að margir þeirra muni styðja það að umhverfisverndarákvæði verði bætt í stjórnarskrána þrátt fyrir að þeir hafi ekki svarað könnun Félags umhverfisfræðinga. Þar ber helst að nefna þau Ara Teitsson, Arnfríði Guðmundsdóttur, Illuga Jökulsson og Vilhjálm Þorsteinsson.
Þannig hafa 19 af 25 stjórnlagaþingmönnum lýst því yfir að þeir séu fylgjandi því að sérstakt umhverfisverndarákvæði verði fest í stjórnarskrá. Það má því gera ráð fyrir að slík tillaga renni greiðlega í gegnum stjórnlagaþingið.