31. des. 2010

Markverðast í umhverfismálunum 2010

Ég gerði könnun á því meðal umhverfisfræðinga og fleira áhugafólks um umhverfismál hvað það teldi hafa borið hæst á sviði umhverfismála á árinu sem er að líða. Niðurstaðan er þessi:

1. Rannsókn leiddi í ljós að vistspor Íslendinga er stærst allra þjóða. Mannkynið þyrfti 21 jörð ef allir lifðu við sömu kjör og Íslendingar.
2. Dioxín og díoxínlík PCB mengun greindist í mjólk á býli skammt frá sorpbrennslustöðinni á Ísafirði.
3. Sjávarútvegsfyrirtæki létu af andstöðunni sinni við alþjóðlegar umhverfisvottanir. Sjóvík og Fram Foods Ísland eru nú MSC vottuð og Icelandic Group hefur sótt um slíka vottun.
4. Sendinefnd Íslands á loftslagsráðstefnunni í Cancún lagði fram tillögu um að endurheimt votlendis verði viðurkennd leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Blaðamaður Guardian hrósaði Íslandi með orðunum: ,,This is a huge step forward, and hats off to Iceland."
5. Orðspor Íslands í loftslagsmálum beið hnekki á árinu þegar í ljós kom að allar Norðurlandaþjóðirnar nema Ísland hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á síðustu tuttugu árum og á loftslagsráðstefnunni í Cancún var tilkynnt að Ísland hefur fallið niður í 24. sæti á lista Germanwatch og Climate Action Network yfir frammistöðu þjóða í loftslagsmálum.
6. Skipulagsstofnun lauk sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum álvers á Bakka og tilheyrandi virkjana og háspennulína. Þetta er fyrsta umhverfismatið sem er unnið á þennan hátt hér á landi.
7. Svanurinn hóf sig til flugs á árinu og nú eru fjórtán íslensk fyrirtæki með Svansvottun og önnur fjórtán fyrirtæki eru með umsóknir í vinnslu. Svansmerktum vörum á markaði hefur einnig fjölgað mikið.
8. Skoðanakönnun leiddi í ljós að flestir telja umhverfismál og nýtingu náttúruauðlinda mikilvægustu umfjöllunarefni stjórnlagaþings.
9. Ríkisstjórnin ákvað að 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, verði héðan í frá Dagur íslenskrar náttúru.
10. Hundraðasti skólinn flaggaði grænfánanum á árinu.