20. des. 2010

Ísland hefur fallið úr fyrsta sæti í það 24.

Ísland hefur fallið úr fyrsta sæti í það 24. á lista yfir frammistöðu þjóða í loftslagsmálum. Það eru samtökin Germanwatch og Climate Action Network sem kynntu niðurstöðu sína á loftslagsráðstefnunni í Cancún í Mexíkó. Þetta er líklega ein þekktasta tilraunin sem gerð er til að meta frammistöðu þjóða á þessu sviði. Það verður reyndar að hafa í huga að ekkert land hefur verið í þremur efstu sætunum síðustu þrjú árin því að ekkert ríki er í raun talið gera nóg til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig að í raun erum við í 21. sæti. Tíu loftslagsvænustu ríkin eru þessi í réttri röð: Brasilía, Svíþjóð, Noregur, Þýskaland, Bretland, Frakkland, Indland, Mexíkó, Malta og Sviss.
Alls eru lagðar ellefu breytur til grundvallar matinu í þremur flokkum: Þróun losunar (50%), heildarlosun (30%) og stefnumótun (20%). Skýringin á þessu falli Íslands niður listann er nokkuð augljós. Tölurnar sem núna er miðað við eru frá árinu 2008, en þá jókst losun Íslands mikið þegar Fjarðaál tók að fullu til starfa (sjá meðfylgjandi mynd). Þess vegna er Ísland sett í versta flokk ríkja varðandi þróun losunar.
Það verður fróðlegt að sjá í hvaða sæti við lendum ef álver á Bakka og í Helguvík rísa. Samkvæmt svari við fyrirspurn Önnu Pálu Sverrisdóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, þá eykst losun gróðurhúsalofttegunda um 610 Gg ef þessi tvö álver rísa í fullri stærð. Það gæti það farið að reynast okkur erfitt að viðhalda grænni ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.