13. des. 2010

Hrægammalýðræði Davíðs Þórs í dagbók Gunnars Thoroddsen

Umræðan um áhrifaleysi landsbyggðarinnar á stjórnlagaþingi var í besta falli kómísk, í versta falli sorgleg. Davíð Þór Jónsson skrifaði ágætan pistil um þetta undir fyrirsögninni Hrægammalýðræði. Þar segir hann meðal annars: ,,En þetta tal ber svo skýran vott um úreltan afdalahugsunarhátt og forneskjulegan lýðræðisskilning, að ég get ekki orða bundist." Hann sagði að í hrægammalýðræði ,,ættu" hinir og þessir fulltrúa á þinginu og í því fælist sá skilningur að fulltrúarnir raði sér í kring um hræið og reyni að rífa í sig sem mest af því.
Hrægammalýðræðið hér á landi hvílir á gömlum merg. Þessa dagana er ég að lesa ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson. Bókin er stórmerkileg vegna aðgangs höfundar að óritskoðuðum dagbókum Gunnars. Dagbókarfærsla Gunnars 12. maí 1945, þá þingmanns Snæfellinga, er lítið en lýsandi dæmi um hrægammalýðræðið: ,,Eftir hádegi var allanna- og erilsamt út af Snæfellingamálum, eins og fyrri daginn. ... Sigþór Pétursson í Ólafsvík út af vörubíl sem hann vill fá frá setuliðinu og ég vona að hægt verði að útvega honum. Vildi hann setja forsætisráðherra í málið.”