12. des. 2010

Guardian tekur hattinn ofan fyrir samninganefndinni - Jónas segir hana ljúga

Jónas Kristjánsson bloggar um niðurstöðu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Cancún og er skiljanlega ósáttur. Miðað við hversu alvarlegar afleiðingar loftsagsbreytingar geta orðið þá eru viðbrögð heimsbyggðarinnar harla lítilmótleg. Ég skrifaði grein um þetta í kjölfar loftslagsráðstefnunnar 2005 og hún gæti alveg eins hafa verið skrifuð í kjölfar fundarins í Cancún.
En Jónas gengur full langt í gagnrýninni að mínu mati þegar hann segir: ,,Samninganefnd Íslands var bara að ljúga, er hún sagði fundinn í Cancún hafa verið góðan." Yfirlýsingar formanns íslensku samninganefndarinnar hafa ekki verið mjög hástemmdar. Í viðtali við mbl.is sagði hann: ,,Þetta var svolítið mikilvægur fundur til að ná samningaviðræðum aftur í gang og skapa traust og það telja menn að hafi tekist." Á Bylgjunni sagði hann samkomulagið sórt skref fram á við í ljósi þess að öll ríki hefðu ákveðið að auka fjármögnun og tækniaðstoð við verkefni í þróunarríkjum. Fulltrúar Oxfam og Friends of the Earth hafa tekið í sama streng. Í fréttum Rúv tjáði formaðurinn sig eingöngu um að gengið hefði verið frá tillögu Íslands um að vernd og endurheimt votlendis verði viðurkennd leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Blaðamaður Guardian í Cancún sá ástæðu til að hrósa Íslandi fyrir þessa tillögu með orðunum: ,,This is a huge step forward, and hats off to Iceland."
Þannig að formaður íslensku samninganefndarinnar hefur í viðtölum lýst því jákvæða sem kom út úr ráðstefnunni, en hann hefur hvergi haldið því fram að árangurinn uppfylli fyllstu kröfur sem gera verður til alþjóðasamfélagsins ef draga á úr hlýnun loftslagsins. Þess vegna fæ ég ekki skilið hverniga Jónas Kristjánsson kemst að þeirri niðurstöðu að íslenska samninganefndin hafi logið.