28. nóv. 2010

Frétt Rúv sannar að gagnrýni Ármanns á rétt á sér

Þegar ég les bloggpistla Ármanns Jakobssonar verð ég yfirleitt jafn pirraður og þegar ég les pistla Tryggva Þórs Herbertssonar. Það er eins og Ármann hafi horft á of marga þætti af Innliti/útliti á sínum tíma og hafi yfirfært ruglið sem var þar í gangi á alla þjóðina. Og þess vegna eigi hún skilið að láta svipuhöggin dynja á bakinu á sér. En stundum á Ármann góða spretti og þar skilur á milli hans og Tryggva Þórs.
Nýverið skrifaði Ármann beitta og þarfa gagnrýni á fréttaflutning Rúv. Hann skrifar meðal annars: ,,Fréttamenn falsa auðvitað ekki fréttir. Þeir taka við fréttum frá áróðurshópum og svo setja þeir þær fram. Það skiptir máli hvort þeir veita áhorfendum einhverjar upplýsingar sem hjálpa þeim að meta áróðurinn en ef þeir gera það ekki er áhorfandinn varnarlaus. Hann hlýtur að taka því sem sett er fram sem sannleika."
Daginn eftir að Ármann skrifaði þennan pistil birti Rúv þessa sjónvarpsfrétt. Þarna gerir Rúv einmitt þetta sem Ármann segir, setur fram áróður en veitir engar upplýsingar til að áhorfandinn geti lagt mat á hann.
En hvernig stendur á því að Rúv stendur sig ekki betur en raun ber vitni í umfjöllun um þetta mikilvæga mál? Ég hef sjálfur unnið á fréttastofu Rúv og veit að þar vinnur vandað fólk sem hefur faglegan metnað. En álagið er mikið á niðurskurðartímum og það er gerð krafa um hröð vinnubrögð. Það kann að bitna á gæðunum. Hraðinn gerir það líka að verkum að menn freistast til gera afstöðu hagsmunaaðila að kjarna frétta. Það er auðvelt viðfangs og krefst lítillar íhugunar eða yfirlegu. Svo má líka nefna að það er tvíbent sverð að hafa fréttamenn starfandi í sveitarfélögum úti á landi. Fólk þarf að hafa breitt bak til að fjalla á gagnrýninn hátt um afstöðu ráðandi afla í litlum samfélögum. Og að lokum grunar mig að það séu frekar fáir fréttamenn á Rúv sem hafa yfir höfuð áhuga á umhverfis-, orku og skipulagsmálum. Af öllum þessum ástæðum ber bloggari úti í bæ höfuð og herðar yfir virtustu fréttastofu landsins þegar kemur að umfjöllun um þessi mál.