29. okt. 2010

Bravó Davíð/Haraldur, bravó Ólafur!

Mér varð það á um daginn að pósta á Facebook að ég vissi ekki hvor væri leiðinlegri leiðarahöfundur, ritstjóri Fréttablaðsins eða ritstjóri Morgunblaðsins. Ég lýsti því eftir meiri framsýni, frumleika og fjöri. Sem komu svo í leitirnar í gær þegar bæði blöðin birtu ljómandi góða leiðara.
Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, fjallar um þá ákvörðun Icelandic Group að sækjast eftir vottun Marine Stewardship Council. Hann gagnrýnir þar m.a. afstöðu LÍÚ: ,,Heimurinn er hins vegar ekki svart-hvítur. Þegar sum umhverfisverndarsamtök hvetja neytendur til að sniðganga allan þorsk vegna þess að tegundin er ofveidd í Norðursjó eða við Kanada er það augljóslega villandi áróður. En þegar önnur umhverfisverndarsamtök benda á þá hættu, sem lífríki Jarðarinnar og lífsafkomu mannkynsins stafar af ofveiði og hvetja neytendur til að kaupa aðeins fisk, sem er veiddur og unninn með sjálfbærum hætti, hafa þau mikið til síns máls. Neytendur víða um heim eru meðvitaðir um þetta og gera kröfu um að fiskurinn sem þeir kaupa á markaðnum eða úti í búð sé umhverfisvottaður."
Morgunblaðið (Davíð eða Haraldur) fjallaði um dýravernd og birti það sem ég álít eina bestu hugvekju um umhverfisvernd sem ég hef lesið lengi: ,,Maðurinn er hrokafyllsta dýrategundin. Það er svo sem ekki að undra því að allar hinar urðu undir og verða nú að lúta honum, líka þær stærstu og kröftugustu. Fyrirferð mannsins fer sífellt vaxandi og mörk frjálsra lenda dýraríkisins á jarðarkringlunni skreppa hratt saman. Þess utan er gáleysi og óvönduð umgengni mannsins í sameiginlegu umhverfi sínu og þeirra dýrunum iðulega háskaleg. Skógareldar vegna íkveikju, flóð vegna ummyndunar lands, olíuslys á sjó og landi, auk venjubundina mengunarslysa eru nokkur dæmi. Votlendi er fargað og samgönguþarfir mannskepnunar þrengja sífellt að. ... Þegar maðurinn hafði náð því að verða herra jarðarinnar og að lokum þannig að yfirburðir hans voru algjörir orðnir, hafði ábyrgðin á tilverunni þar með einnig flust til hans. Stöðu hans fylgja skyldur og þær ríkar." Ég hvet alla til að næla í blaðið og lesa leiðarann í heild sinni.
Bravó Davíð/Haraldur, bravó Ólafur!