27. sep. 2010

Stefnumótun byggð á frekju og óskhyggju

Andri Snær Magnason skrifaði ágæta grein í Fréttablaðið um daginn sem hann kallaði Í landi hinna klikkuðu karlmanna og í kjölfarið ræddu hann, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og fleiri greinina á opnum fundi í Háskóla Íslands. Fundurinn var hljóðritaður og núna er hægt að hlusta á hann á heimasíðu Framtíðarlandsins.
Ég sat þennan fund og mér brá við að heyra sumt sem Vilhjálmur hafði fram að færa. Til dæmis þetta.

VE: ,,Þannig var að þegar við vorum fyrir ári síðan að gera þennan stöðugleikasáttmála þá blasti það við að það voru þarna framkvæmdir í gangi. Það voru þarna aðilar, Norðurál, sem er að byggja álverið í Helguvík var komið í gang með að byggja álver. Það var verið að framkvæma þarna fyrir annað hundrað milljónir á mánuði þess vegna og það er risin þarna grind. ... Síðan eru líka orkufyrirtækin sem voru þarna til staðar. Þau voru búin að gera samninga um orkusölu til álversins og túrbínur á leið til landsins, búið að panta þær og ganga frá því öllu saman. ... Og við fengum á fundi okkar ekki bara fulltrúa þessara fyrirtækja, heldur líka sjálfan forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann og fullt af embættismönnum og það var nú bara enginn af þessu góða fólki sem uppfræddi okkur um það að það væru einhver sérstök vandamál í veginum fyrir því að vera búin að klára allar hindranir og koma þeim úr vegi fyrir 1. nóvember í fyrra.
Spurt úr sal: Trúðuð þið því?
VE: Trúðum við því. Ja, við höfðum bara mikinn áhuga á því að sjá þetta rísa."

Nú má öllum almenningi vera orðið ljóst að álver rís ekki í Helguvík, meðal annars vegna þess að hvorki fæst til þess nægilegt fé né orka. Reyndar hefur þetta legið ljóst fyrir eins lengi og menn hafa kært sig um að bera saman orkuþörf annars vegar og mögulega orkuframleiðslu hins vegar. Þess vegna veldur það mér hugarangri að í fyrrasumar sömdu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og fulltrúar stjórnvalda um stöðugleikasáttmála sem gerði ráð fyrir álveri í Helguvík, að því er virðist án þess að hafa hugmynd um raunverulega stöðu mála. Að minnsta kosti ef marka má orð Vilhjálms Egilssonar. Hafði virkilega enginn úr þessum hópi sest niður og reiknað dæmið til enda? Atvinnulífið virðist bara hafa litið svo á að málið væri í höfn vegna þess að til væri álframleiðandi sem væri til í að fjármagna dæmið. Og fulltrúar stjórnvalda virðast hafa hlustað á kröfur atvinnulífisins og bara spilað með. Ef ég er að draga réttar ályktanir þá hljómar þetta eins og bergmál úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankanna. Engin fræðileg greiningarvinna að baki stefnumótun - bara frekja og óskhyggja. Þannig vinnubrögð færðu okkur bankabólu - vonandi bíður orkubóla ekki handan við hornið.