30. sep. 2010

Íslendingar eru næst orkufrekasta þjóð í heimi

Það er fróðlegt að skoða Lykiltölur ársins 2010 sem Alþjóða orkumálastofnunin gefur út. Sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram hér á landi um orkumál eftir hrunið. Krafan um fleiri virkjanir er sett fram af svo mikilli ákefð og tilfinningahita að það mætti halda að þjóðin ætti enn langt í land með að iðn- og rafvæðast til jafns á við önnur vestræn lönd. En það er öðru nær. Í lykiltölum Alþjóða Orkumálastofnunarinnar er orkunotkun þjóða árið 2008 borin saman eftir höfðatölu. Mælieiningin er jafngildi olíutonns (TOE - ton of oil equivalent). Orkunotkun stórveldisins Kína er 1,6 TOE og Bandaríkjanna 7,5 TOE. Orkunotkun norðurlandanna er svona: Svíþjóð 5,36, Noregur 6,22, Finnland 6,64 og Danmörk 3,46. Olíuríki í Mið-Austurlöndum eru í hópi þeirra orkufrekustu; Saudi Arabía með 6,56, Bahrain 12,03 og Sameinuðu Arabísku furstadæmin með 13,03. Orkunotkun Íslendinga slær næstum öllum öðrum við með 16,47 TOE! Eina landið sem er orkufrekara en Ísland er Qatar með 18,83 TOE. Orkunotkun okkar per haus er því á við ríkustu olíuríkin við Persaflóa. Hvernig stendur þá á því að krafan um fleiri virkjanir, jafnvel tvöföldun á orkuframleiðslu landsins, er svona hávær?