29. maí 2010

Þörf umfjöllun um galla ETS

Upp á síðkastið hefur talsvert farið fyrir Magnúsi Jónssyni, fyrrverandi Veðurstofustjóri, í umfjöllun um umhverfismál. Hann hefur til að mynda skrifað greinar í Morgunblaðið um grænan hagvöxt og auðlindaskatta. Nú síðast stormar hann fram á ritvöllinn með fróðlegri grein um umhverfisskatta í síðasta tölublað Tíundar. Margt fróðlegt sem þar kemur fram, t.d. þetta: ,,Í desember sl. kom út skýrsla frá EUROPOL, Glæparannsóknastofnun Evrópu, sem dregur upp dökka mynd af ETS-kerfinu (viðskiptakerfi með losunarheimildir) í ESB eftir fjögurra ára reynslu af því. Þar er því haldið fram að 90% af öllum viðskiptum með losunarheimildir fari fram á forsendum skattsvika sem nemi um 1.000 milljörðum ÍSK á ári. Kerfið virki eins og segull á stórfelld virðisaukaskattsvik og sé draumakerfi fyrir peningaþvætti. Loks er því haldið fram að það dragi ekki úr losun gróðurhúsalofttegunda. Að óbreyttu sé þetta kerfi því paradís fjársvikara og sé fyrst og fremst gróðatækifæri fyrir mestu mengunarfyrirtækin og fyrir verðbréfasala og fjárfesta." Þarna fjallar Magnús um hlið á viðskiptakerfinu sem hefur fengið sáralitla ef nokkra umræðu hér á landi. Vonandi breytist það til batnaðar.