29. jan. 2006

Loftslagshlýnun, ást þótt gengið sé lágt og Vreeswijk


Hef fylgst með því fréttum undanfarna daga að það er mikið rætt um Ísland og Kyoto. Eru undanþágurnar nógu miklar til að hægt sé að fjölga álverum um þrjú? Kannski. En það er ekki rétta spurningin. Spurning er hvort við viljum frekar vera fyrirmyndar umhverfissóðar eða fyrirmyndar grænmeti. Ætli seinni kosturinn sé ekki betri. Við getum grætt á ferðamennsku, sjávarútvegi, Baugi, bönkunum, tækniiðnaði og svo VETNINU!!! Ég hitti Hjálmar Árnason, formann vetnisnefndar Alþingis í sumar og við töluðum um nýja fréttastjórann á fréttastofu Útvarps en ég gleymdi að minnast á vetnið við hann. Við vorum staddir á klósettinu í brúðkaupi sonar Hjálmars. Hvað ætli vetnismanninum finnist um þessa stóriðju? Það verður engin orka eftir til að framleiða vetnið. Blessað vetnið.
Annars er þetta að frétta af loftslagshlýnun af mannavöldum: sífreri í Alaska er farinn að bráðna í fyrsta skipti í 3.000 ár, yfirborð sjávar hækkar hraðar en á undanförnum áratugum og árið 2005 var eitt það hlýjasta síðan hitamælingar hófust.
Þar sem ég sit hér og skrifa þessar línur taka Vilhjálmur Vilhjálmsson og Ellý Vilhjálmsdóttir lagið: ,,ó ljúfa líf, við lofgjörð syngjum þér þú fagra ljúfa líf sem gefur gleðistundir þínar, unað og ást sem aldrei mun mást. Þú gjöf átt þótt gengið sé lágt." Að geta fjallað um gengismál á þennan hátt er aðdáunarvert. Ég gæti ekki hugsað mér að vera í blaðamennsku þessa dagana og fjalla stanslaust um hver staða krónunnar sé. Sterkt, veikt, hátt eða lágt? Hvað Bretar verða hissa þegar ég segi þeim að Íslendingar séu 300.000 talsins. Síðan verða þeir enn meira hissa þegar ég segi þeim að við tölum okkar eigið tungumál. Síðan tekur steininn úr þegar ég segi þeim að við eigum okkar eigin gjaldmiðil. ,,And then we eat sheepshead and drink brennivin and lysi. Skál."
Talandi um tónlist. Ég kynntist Cornelis Vreeswijk (sjá mynd) um daginn og mæli með honum. Hann fer að verða efstur í "play count" í ITunes með lögin Jeg hade en gang en baat, Nudistpolka, Cool Water og Veronica. Ég hef ekki orðið eins spenntur fyrir nýrri tónlist síðan ég kynntis Tom Waits. Gott ef Cool Water er ekki fallegra lag en In between love með Waitsaranum.