8. des. 2005

Húsdýragarðurinn: selir og svifryk fyrir alla fjölskylduna


Þá er tveimur prófum lokið og aðeins eitt eftir. Prófin tvö voru í kúrsum um loftslagsgæði og umhverfishagfræði og ég hef ekki hugmynd um hvernig mér gekk. Það er skrítið að svara prófum á ensku og ég er ekki frá því að ég hafi orðið meiri samúð með ritblindum eftir þessa lífsreynslu.
Ég ákvað að verðlauna mig að loknu prófi í gær og fór þess vegna í bókabúð og keypti bókina Power to the People eftir Vijay V. Vaithesswaran, blaðamann Economist. Bókin fjallar um það hvernig mannkynið getur farið að nota aðra orkugjafa en mengandi olíu og kol. Vijay þessi ferðaðist meðal annars til Íslands til að kynna sér hvernig við ætlum að vera orðin vetnisþjóð áður en langt um líður. En græn ímynd landsins fær síðan útreið í bókinni: ,,Looking across Reykjavik´s waterfront at 3 a.m. in July, you might expect to see a bright sky lit by the Arctic sun. Yet what you are more likely to encounter is a shroud of unhealthful, unattractive smog hanging over the otherwise spectacular vista". Og í fréttum segir að svifryk hafi farið nærri tuttugu sinnum yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík á þessu ári, meðal annars í Húsdýragarðinum sem býður nú upp á seli og svifryk fyrir alla fjölskylduna. Svo sagði einhver borgarfulltrúinn að það þyrfti að skattleggja notkun nagladekkja í borginni til að draga úr notkun þeirra. Eina rétta leiðin er að banna nagladekk. Ég hef ekki sett Litla bleik á nagladekk í mörg ár og aldrei lent í vandræðum. Ég keyri bara hægar þessa nokkra daga á ári sem það er mikil hálka á götunum.
Hvers vegna ætli stjórnmálamenn vilji ekki banna nagladekk sem eru greinilega heilsuspillandi en taka sig síðan til og banna fólki að kaupa íbúfen og parkódín nema með framvísun lyfseðils. Það væri kannski hægt að banna notkun nagladekkja nema gegn framvísun vottorðs frá Umferðarstofu um það að maður sé ömurlegur bílstjóri.