2. des. 2005

Antony and the Johnsons í Glasgow


Ég fór á tónleika með Antony and the Johnsons í vikunni. Reyndar voru það hálfir tónleikar. Við skötuhjú ókum frá Edinborg til Glasgow til að eiga skemmtilega kvöldstund. Byrjuðum á því að villast í Glasgow þar sem annar eða fjórði hver gestur er myrtur samkvæmt opinberum tölum og þar sem meðalaldur karlmanna er um 40 ár að ég held. En við komumst heil og höldnu á tónleikastað eftir að hafa spurt nokkra heimamenn til vegar. Það komu mér mjög á óvart að þeir rændu okkur ekki.
Nú tónleikarnir byrjuðu ekki vel. Upphitunartrúbadorinn var hræðilegur. Ég lét það samt ekkert pirra mig þar sem ég var bara ánægður með að vera á lífi. Þegar Antony steig á sviðið var mér þó mikið létt. Og snilldin lét ekki á sér standa. Þessi rödd er yndisleg á að hlíða og lögin eru frábær. Þetta var eitthvað annað en Sigurrósar tónleikarnir sem ég var dreginn á með töngum um daginn. Það eru leiðindi maður og hassið var reykt í svipuðum mæli og svínahamborgarhryggir nokkrum dögum fyrir jól. En Antony bauð upp á góð lög, fallegan söng, djúpa innlifun og frábæra hljómsveit. Þannig að kvöldið gekk eins og vel smurð reiðhjólakeðja þangað til að kærastan mín fékk aðsvif. Stormaði út, fölgræn í framan þessi elska. Þannig að við náðum bara 40 mínútum af snilldinni. Svekkelsið maður, svekkelsið.
Antony sagðist vera á leið til Íslands á næstu vikum og hann blaðraði eitthvað um landslagið. Fannst þetta voða frábært allt saman. En tónleikarnir, fyrstu 40 mínúturnar að minnsta kosti, fá 5 stjörnur af 5 mögulegum. Toppuðu meira að segja Elvis Costello tónleikana sem ég fór á í Edinborg fyrir nokkru. Það er ekki hlaupið að því skal ég segja þér. Nú á ég bara eftir að komast á Rufus Wainwright tónleika og þá er hinni heilögu þrenningu náð. Hann er reyndar að spila í Glasgow í miðri prófatörn. Á ég? Og að lokum vil ég þakka öðlingnum honum Adolfi Inga Erlingssyni fyrir að spila Antony & the Johnsons á fullu blasti í fréttastofunni. Þannig kynntist ég þessum elskum.