17. nóv. 2005

Lengri hengingaról, endurnýjanleg orka og Dali Lama

Ef marka má nýjustu fréttir þá hefur Bandaríkjamönnum tekist að dæla koltvísýringi niður í hálf tómar olíuborholur. Þannig draga þeir úr gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu, sem er gott. En um leið eykst olíuframleiðslan vegna þess að þrýstingurinn í holunum vex, sem er vont.
Orkumálaráðuneytið gerði tilraun í Kanada og dældi 5 milljónum tonna af koltvísýringi niður í borholurnar. Ef þetta yrði gert við allar virkar borholur í heiminum þá væri hægt að færa einn þriðja, kannski helming, af koltvísýringslosun heimsbyggðarinnar niður í jörðina. Um leið myndi olíuframleiðslan aukast um milljarða tunna. Þannig væri hægt að lengja aðeins í hengingarólinni. Olíuhagkerfið fær þá kannski að lifa óáreitt nokkur ár til viðbótar og gróðurhúsalofttegundum verður áfram dælt út í andrúmsloftið þrátt fyrir að eitthvað yrði dregið úr framtíðarlosun með því að dæla koltvísýringi niður í jörðina.
Reyndar berast líka jákvæðar fréttir af orkumálum. Á síðasta ári var fjárfest fyrir um 30 milljarða dala í endurnýjanlegum orkugjöfum, sem var um fjórðungur allra fjárfestinga í orkugeiranum. Sólarrafhlöðumarkaðurinn stækkar örast af endurnýjanlegum orkugjöfum og nú eru um 400.000 heimili í Japan, Þýskalandi og Bandaríkjunum með sólarrafhlöðu á þakinu.
Annars er ég í skít upp fyrir axlir í skólanum. Tókst með herkjum að ljúka ritgerð á síðustu stundu um áhrif loftslagsbreytinga á þorskstofninn í Norður-Atlantshafi. Á eftir að skrifa um kosti og galla mengunarskatta á Nýja-Sjálandi og áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Síðan er prófin handan við hornið og ég held að ég viti minna um umhverfishagfræði núna en áður en ég byrjaði í náminu. En ég fer að sjá Dali Lama á laugardagsmorgun og vonandi fyllir það mig af bjartsýni. Ekki nema að það veki með mér enn meiri reiði í garð Kínverja. Bölvaðir kommúnistarnir voru að handtaka mann um daginn sem ætlaði að stofna umhverfisverndarsamtök í landinu. Það veitir víst ekki af. En ætli þessi vel meinandi maður sitji ekki núna í einhverju heilaþvottahúsi á afskekktum stað í Kína.