25. nóv. 2005

Hvað eiga Walter Cronkite og Leonardo DiCaprio sameiginlegt?

Á meðan Bandaríkjastjórn hagar sér eins og óþekkur krakki á loftslagsráðstefnunni í Montreal og neitar að taka virkan þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum er hópur Bandaríkjamanna að mótmæla stefnu eigin stjórnar á netinu. Hann hefur fengið fína og fræga fólkið til liðs við sig og ég ætla að birta hérna nokkur ummæli sem benda til þess að bandaríska þjóðin sé ekki á sömu línu og Bandaríkjastjórn.

Walter Cronkite (líklega elskaðasti fréttaþulur sem birst hefur á skjánum): ,,Ríkisstjórnir heimsins hafa frestað aðgerðum of lengi og Bandaríkjastjórn ber án nokkurs efa mesta ábyrgð á því. Almenningur hefur aflið til að færa þjóðina fremst í flokk þeirra sem þramma sigurgöngu umhverfisverndar í heiminum. Ég vil taka þátt í þeirri göngu og ef það er pláss fyrir mig fremst þá hefði ég gaman af að fá að spila á bassatrommu í lúðrasveitinni svo ég geti undirstrikað takt dýrlegrar velgengni umhverfisverndarhreyfingarinnar".

John McCain er þingmaður repúblíkana og fyrrum forsetaframbjóðandi: ,,Að mínu mati eru sönnunargögnin sannfærandi og afleiðingar loftslagsbreytinga eru ógnvekjandi. ... Því lengur sem við bíðum, því erfiðara verður að takast á við vandann. Ætlum við virkilega að færa börnum okkar og barnabörnum veröld sem verður gjörólík þeirri sem við lifum í í dag?"

Leonardo DiCaprio, leikari og kvennagull: ,,Þúsundir vísindamanna á sviði loftslagsmála eru sammála um að hlýnun loftslagsins sé ekki einungis mesta umhverfisógnin um þessar mundir heldur einnig mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Við verðum að krefjast aðskilnaðar ríkisvaldsins og olíuiðnaðarins. Einungis þannig getum við losað okkur undan olíufíkninni og dregið úr loftslagshlýnun.

Arnold Schwarzenegger, leikari, repúblíkani og ríkisstjóri í Kaliforníu: ,,Loftslagshlýnun, mengun og brennsla olíu og kola eru ógnir sem við stöndum frammi fyrir í Kaliforníu og um allan heim. ... Hlýnunin skemmir vatnsból, heilsu fólks, landbúnað, strandlengjuna, skóga og margt fleira. Við eigum ekki annarra kosta völ en að takast á við þessa áskorun".

Wesley Clark, demókrati, þingmaður og hershöfðingi: ,,Fjöldi fólks skilur ekki að hlýnun loftslags og umhverfisverndarstefna snúast um þjóðaröryggi. Við sjáum áhrif hlýnunar á náttúruna allt í kringum okkur en það er erfiðara að sjá áhrif hennar í víðara samhengi. ... Hlýnunin leiðir til þurrka, hungurs, skorts á drykkjarvatni og hún minnkar aðgang okkar að áreiðanlegum orkugjöfum. Allt þetta dregur úr jafnvægið í alþjóðastjórnmálum og getur á endanum leitt til stríðsátaka. Baráttan fyrir því að draga úr loftslagshlýnun af manna völdum snýst því ekki bara um að vernda náttúruna fyrir veiðimenn, göngugarpa og annað útivistarfólk. Hún snýst um þjóðaröryggi.