23. nóv. 2005

Dali Lama: tvær stjörnur af fimm


Dali Lama, friðarverðlaunahafi Nóbels, er staddur í Skotlandi þessa dagana og ég fór ásamt ritstjórnarfulltrúa Grænmetis í Edinborg (sjá mynd) á fyrirlestur hjá kappanum eldsnemma á laugardagsmorgun. "His holyness", eins og Skotar kjósa að kalla hann, olli mér talsverðum vonbrigðum. Í fyrsta lagi var hann ekkert sérstaklega góður í ensku og þess vegna var stundum eins og hann vissi ekki alveg hvert umræðuefnið væri. En hann lét það ekki stoppa sig og talaði þá bara um almenna skynsemi og góðvild í garð annarra. Í öðru lagi þá sagði hann að það væri allt í lagi að fara í stríð ef málstaðurinn væri góður. Þess vegna var hernám Kínverja í Tíbet ekki réttlætanlegt að hans mati en Kóreustríðið og kannski Íraksstríði voru það. Já, hann sagði að það ætti eftir að koma í ljós hvort Íraksstríðið sé ekki bara hið besta mál! Greinilegt að hann vill ekki styggja Breta og Bandaríkjamenn sem halda líklega verndarhendi yfir honum og tíbesku útlagastjórninni. Á þessum tímapunkti var ég kominn að því að spretta á fætur, ata hann svívirðingum og storma út úr salnum. En þá spurði fyrrverandi biskup héðan úr Edinborg hann hvernig það væri hægt að meta hvaða málstaður réttlætti stríð þannig að ég varð að sitja lengur. Þá fór hann aftur út um víðan völl og svaraði engu en talaði í frösum sem Útvarp umferðarráð hefði getað samið fyrir hann, ,,láttu skynsemina ráða för".
Þannig að Dali Lama fær tvær stjörnur af fimm mögulegum. Nú hef ég farið á fundi hjá þremur ,,frægum" mönnum hérna í Edinborg; Dali Lama, Hans Blix og George Galloway. Af þessum þremur fær Hans Blix viðurkenningu fyrir besta handritið. Hann fór fyrir vopnaleitasveit Sameinuðu þjóðanna í Írak áður en Bandaríkjamenn og Bretar réðust þangað inn og eftir að hann hafði lokið máli sínu á fundinum var málflutningur Bandaríkjanna um gjöreyðingavopn orðinn eitt gatasikti. Fjórar stjörnur. George Galloway fær viðurkenningu fyrir besta leik í aðalhlutverki. Betri ræðumann hef ég ekki séð og honum tókst að vekja hálfgerða múgsefjun meðal fundarmanna þegar hann talaði gegn stríðinu í Írak. Nokkru seinna brilleraði hann í yfirheyrslu hjá bandarískri þingnefnd. En maðurinn er hálfgerður gallagripur. Var í góðu sambandi við Saddam Hussein lengur en góðu hófi gegndi og núna túrar hann um heimsbyggðina með uppistand. Er þess vegna einn tekjuhæsti breski þingmaðurinn án þess þó að stunda þingstörfin nema í hjáverkum. Þrjár stjörnur. Dali Lama fær viðurkenningu fyrir bestu leikstjórn og besta búninginn. Þessi rauði kufl og þetta vinalega bros gera það að verkum að manni finnst eins og hann hljóti að vera hálfgerður dýrlingur. En annað kom á daginn. Tvær stjörnur.