14. okt. 2005

Offramboð á heimsendaspám

Ef marka má fréttir hér í Bretlandi þá ætlar fuglaflensan allt lifandi að drepa. Fólk hringir dauðskelkað inn í símaþætti í útvarpi og spyr hvort það eigi á hættu að smitast af farfuglum. Ég heyrði líka viðtal við dýralækni í útvarpinu í gær sem sagði að vissulega væri fólk í hættu, t.d. ef það kyssti og kjassaði dauðar hænur sem hefðu smitast af fuglaflensu! Ég horfði á fréttatíma í fyrradag sem fjallaði eingöngu um hættuna sem stafaði af fuglaflensu og ég var orðinn svo skelfdur að þeim loknum að ég hugsaði með mér hvort það væri ekki bara best að vera í sóttkvínni heima á Íslandi. En þegar öllu er á botninn hvolft þá hafa tiltölulega fáir dáið úr fuglaflensu og þeir hafa verið fátækir alifuglabændur sem hafa nánast lifað með sýkt fiðurfé uppi í rúmi hjá sér. Svo getur maður víst étið egg og kjöt af þessum skepnum án þess að hafa nokkrar áhyggjur. En fjölmiðlar dansa með og láta eins og himinn og jörð séu að fara. Ekki ósvipuð því þegar fjölmiðlar heima fjalla um ófremdarástandið á Landsspítalanum og hjá SÁÁ í kringum fjárlagagerðina.
Þannig að ég hef sem sagt ákveðið að taka ekki mark á þessari heimsendaspá en mun engu að síður forðast það að kyssa og knúsa dauðar hænur. Ég læt þess vegna gróðurhúsaáhrifaheimsendaspána duga mér í bili. Af þeim vettvangi er það að frétta að árið 2005 er annað eða þriðja heitasta ár síðan mælingar hófust. Þetta kemur fram í frétt Vísis: "Vísindamenn segja veðurfarið sýna að hlýnun jarðar af völdum manna er vandamál. Vísindamenn bresku veðurstofunnar hafa komist að því að árið sem nú er langt komið sé eitt það hlýjasta síðan að mælingar hófust. Árið 1998 er það heitasta í sögunni en árið í ár er ekki mikið kaldara. Þetta hefur víðtækar afleiðingar fyrir fólk á heimskautasvæðum og þá sem búa á láglendi við strendur.
Undanfarin ár eru öll á meðal þeirra heitustu síðan mælingar hófust og telja vísindamenn margir þetta frekari vísbendingu um hlýnun jarðar. Það eru einkum aðgerðir mannskepnunnar, notkun jarðefnaeldsneytis og útblástur gróðurhúsalofttegunda sem taldar eru áhrifavaldarnir. Veðurfræðingar benda enn fremur á öfluga fellibylji í Bandaríkjunum, gríðarlegan þurrk í Portúgal og á Spáni og flóð í kjölfar rigningar við Sviss, Þýskalandi, Austurríki, Búlgaríu og Rúmeníu."