30. okt. 2005

Karl Bretaprins, koltvíoxíðshali og íhaldssöm bændaforysta


Enn og aftur hefur Karl Bretaprins sýnt og sannað að hann ber af öðrum konungbornum um þessar mundir. Hann sagði í viðtali við BBC í vikunni að heimsbyggðin yrði að leggja meiri áherslu á að takast á við orsakir og afleiðingar loftslagshlýnunar. Hún væri stærsta áskorun sem mannkynið stæði frammi fyrir um þessar mundir. Aðdáun mín á þessum manni vex bara og vex.
Hann sagðist ekki vilja standa augliti til auglitis við barnabörnin sín þegar þar að kæmi og þurfa að útskýra hvers vegna hann hefði ekki gert neitt í því að hafa áhrif á þróun þessara mála. Það er vonandi að hann ræði þessi mál í heimsókn sinni til George Bush í þessari viku.
Í sama viðtali hvatti hann Breta til að kaupa lífrænt ræktaðar landbúnaðarvörur beint frá bændum í stað þess að kaupa vörur í stórmörkuðum sem fluttar hafa verið heimshorna á milli. Þetta er sá matvörumarkaður sem stækkar einna örast hér í Bretlandi og við skötuhjúin höfum í huga að fá vikulegar heimsendingar frá sveitabæ hérna í útjaðri Edinborgar. Þannig forðumst við að kaupa vörur með langan koltvíoxíðshala, spörum ferðir í stórmarkaðinn og styrkjum bændur hérna í nágrenninu. Á meðan berast manni fréttir frá Íslandi um að sláturhús neiti að slátra lífrænt ræktuðu lambakjöti. Maður sem ég hitti nýlega og þekkir vel til í landbúnaðargeiranum segir að svona sé þetta vegna íhaldsemi íslensku bændaforystunnar. Ljótt ef satt reynist.