20. ágú. 2005

Aukinn þrýstingur á Bandaríkjaþingi


Bandarískir þingmenn, sem eru nýkomnir úr ferð til Alaska, segja að áhrif hlýnandi loftslags séu orðin svo mikil að þingið verði að grípa til aðgerða. Meðal þingmannanna eru jafnt demókratar sem repúblíkanar, þar á meðal repúblikanarnir John McCain og Lindsey Graham. Þeir fullyrða að hlýrra loftslag sé um það bil að hafa lífsviðurværið af fólki á norðurströnd landsins. Ísinn bráðnar, skógar hverfa og dýrategundir hverfa eða færa sig um set.
Búist er við því að vitnisburður þingmannnanna verði vatn á myllu þeirra John McCain og Joe Lieberman, en þeir hafa lagt frumvarp fyrir þingið sem gerir ráð fyrir að ákveðin takmörk verði sett á losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum. Frumvarpið hefur nokkrum sinnum verið fellt vegna ótta við að það kunni að draga úr hagvexti í landinu.
James Inhofe, formaður umhverfisnefndar bandaríska þingsins, hefur fullyrt að gróðurhúsaáhrifin séu uppspuni, enda séu þau ekki vísindalega sönnuð. McCain segir aftur á móti að almenningur í Bandaríkjunum krefjist breytinga, en fram til þessa hafi sérhagsmunir stórfyrirtækja verið teknir fram yfir almannahag. Bara að hann hefði verið forsetaefni repúblíkana á sínum tíma. Það hefði orðið snilldar forsetakosningar; McCain vs. Gore. Góð blanda tveggja annálaðra umhverfisverndarsinna. Það hefðu orðið svona malt og appelsín forsetakosningar.