13. júl. 2005

Edmund Hillary í raðir græningja


Græningjum hefur bæst liðsauki. Edmund Hillary, sá er fyrstur kleif Mount Everest ásamt Tenzing Norgay árið 1953, hefur hvatt til þess að fjallið verði sett á válista Sameinuðu þjóðanna vegna hlýnunar loftslags. Ef af verður þá þurfa samtökin að meta hættuna og finna leiðir til að snúa þróuninni við í samstarfi við nepölsk yfirvöld. Þar yrði ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.
Jöklar í Himalajafjöllum bráðna nú hratt og fjallgarðurinn verður ekki svipur hjá sjón ef svo fer fram sem horfir. Auk þess hefur skapast hætta á mannskæðum flóðum í héruðum þar í kring.