28. jún. 2005

Á síðum Viðskiptablaðsins

Það var skrifað um mig í fjölmiðlapistli Ólafs Teits fjölmiðlaspekúlants í síðasta Viðskiptablaði. Vafasamur heiður í meira lagi.
Hann byrjaði nú reyndar gagnrýni sína á fréttaflutning RÚV á því að fjalla um fréttir Útvarpsins um jafnréttismál og kvartar undan misvísandi uppslætti fréttamanns sem þar starfar. Ólafur sér samt, aldrei þessu vant, ekki ástæðu til að birta nafn þess ágæta fréttamanns sem er ágætis kunningi minn. Í spjalli við mig sagði hann ástæðuna borðleggjandi: hann og Ólafur Teitur eru gamlir félagar úr Sambandi ungra sjálfstæðismanna.
En um mig skrifaði Ólafur Teitur: ,,Daginn eftir ... sagði fréttastofa Sjónvarpsins frá ályktun Ungra jafnaðarmanna um stöðuveitingar til stjórnmálamanna. Rætt var við formanninn, Andrés Jónsson. Sá sem ræddi við hann, og gerði fréttina, var Guðmundur Hörður Guðmundsson.
Fyrri aðeins tveimur árum var Guðmundur Hörður formaður kjördæmisráðs Ungra jafnaðarmanna í Suðvesturkjördæmi. Hann sat þess vegna í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna, ásamt ... Andrési Jónssyni.
Þeir sem hverfa úr pólitísku starfi yfir í blaðamennsku eru auðvitað ekki vanhæfir til þess að fjalla um pólitík um aldur og ævi. En menn hljóta að setja sjálfum sér einhver skynsamleg takmörk þegar kemur að því að fjalla um einmitt þann vettvang þar sem þeir störfuðu sjálfir; menn gætu til dæmis hinkrað þangað til einhverjir aðrir en fyrrverandi samstarfsmenn verða þar í forsvari".
Svo mælti Ólafur Teitur. Ég ætla nú ekki að reyna að mótmæla þessu, enda Ólafur Teitur líklega með skemmtilegri forsjárhyggjumönnum í blaðamennsku um þessar mundir. Ég þakka bara fyrir að hafa aldrei setið í stjórn Sögufélags Hafnarfjarðar. Það yrði minn banabiti að geta ekki fjallað um störf þess merka félags í fréttum sjónvarpsstöðvar ríkisins. Til dæmis komandi formannsslag bræðranna Sverris Þórs og "Þorláks" Helga. Kannski að ég sendi Ólafi Teiti samt tölvupóst og fái leyfi hjá honum áður en ég fjalla um Sögufélagið. Ég held að hann sjálfur hafi fengið leyfi þegar hann fór og studdi pólitíska bandamenn sína á landsfundi SUS um árið. Hann hefur líklega þurft að fá leyfi frá störfum á fréttastofu Útvarpsins, þar sem hann vann á þessum tíma, til að geta tekið þátt í fjörinu.
Ólafi Teiti verður hins vegar hálla á svellinu þegar hann gagnrýnir penna Fréttablaðsins fyrir neikvæðni í pistlaskrifum. Þar skýtur Ólafur Teitur aðeins yfir markið og gagnrýnin er ekki beint fagleg. Hvað kemur honum það við í hvernig skapi aðrir blaðamenn eru? Hvaða forsjárhyggja er það? Hvað var um frjálslyndi Ólafs? Ólafur, hvar ertu?