3. jún. 2005

Pistill frá Kaliforníu

Síðunni hefur borist bréf. Hannes nokkur Helgason stærðfræðingur stundar nám í Kaliforníu í Bandaríkjunum og áhugi hans á orkumálum er greinilega mikill, enda heitt mál á þessu svæði. Fékk góðfúslegt leyfi hjá honum til að birta bréfið:

Hér í Caltech eru mikið rætt um þessi mál og þá sérstaklega í tengslum við framtíð orkumála í heiminum. Er nú þegar búinn að fara á tvo stóra fyrirlestra þar sem prófessorar við skólann ræddu þessi mál og hvaða möguleikar væru fyrir hendi. Satt best að segja er útlitið svart því ef fólksfjölgunin heldur fram sem horfir og ríkistjórnir vilja viðhalda svipuðum hagvexti þá ræður mannskepnan ekki yfir þeirri tækni sem þarf til þess að fullnægja orkuþörfum okkar.
Við gætum haldið áfram að brenna kolum og olíu í einhverja tugi ára, en þar sem magn koltvísýrings í loftinu í dag er meira en það hefur verið í 500.000 ár þá er spurning hvort við viljum taka þátt í þess háttar tilraun á plánetunni okkar (svar eins prófessorsins var "It depends on how lucky you feel.")
Nú þurfa ríkisstjórnir og aðrir sem geta stutt við rannsóknir að vanda val sitt þegar kemur að því að setja pening í verkefni sem mögulega geta leyst vandann. Ef við viljum vera búin að skipta út CO2 losandi orkugjöfum fyrir árið 2050 og reisa kjarnorkuver í staðinn, þyrfti til þess 10,000 ný ver. Semsagt, eitt nýtt kjarnorkuver þyrfti að vera reist annan hvern dag næstu fimmtíu árin. Fyrir utan þennan mikla byggingarkostnað er ekki víst hvort við hefðum aðgang að nægum geislavirkum efnum (úraníum) til þess að takast á við þetta stóra verkefni. Þar fyrir utan er óljóst hvað við ættum að gera við allan þann geislavirka úrgang sem þessu fylgir.
Kjarnasamruni (fusion) er enn á rannsóknarstigi og við eigum langt í land með að slíkt verði að veruleika þannig að hægt verði að byggja einhver orkuver - ef það verður þá einhvern tímann hægt. Þó má ekki afskrifa þennan möguleika þótt tæpur sé. Þurfum að eyða miklu meiri fjármunum í þennan rannsóknargeira en nú er gert til
þess að fá einhver svör.
Að virkja sjávarföllin er önnur leið sem menn hafa velt fyrir sér, en það myndi aðeins gefa okkur brot af þeirri orku sem við þyrftum.. Þetta
gæti aldrei leyst vandann endanlega.
Vindorka er annar möguleiki, en vindmyllum fylgir gríðarlegur viðhaldskostnaður og við þyrftum að fórna stórum landsvæðum í heiminum á stærð við meðalstór fylki í Bandaríkjunum. Á engan hátt praktísk lausn.
Að virkja vatnsföll leysir ekki vandann. Búið er að virkja þar sem það borgar sig í hinum stærri löndum. Þar fyrir utan eru stór vötn að þurrkast upp, jöklar að hopa og við eigum við önnur stór vandamál tengd vatni að glíma; þ.e. vatn til manneldis.
Vetnisorka er "pólítísk" orka. Þetta er leið til þess að geyma orku, ekki framleiða
hana og nú í dag eru pólítíkusar um allan heim að monta sig af því hversu mikla vetnisorku þeirra land notar. Þeir gleyma að taka fram að að þeirra vetnisorka fæst með því að umbreyta annarri orku yfir í þetta form.
Það þýðir að í flestum tilfellum brenna menn kolum og koma orkunni sem við það fæst yfir á vetnisform. Við þetta ferli tapast að sjálfsögðu orka og á endanum höfum við minni orku á milli handanna en ef við hefðum notað kolin/olíuna beint. Sem bónus höfum við mengað jafn mikið. Vetnið má ekki afskrifa þótt pólítíkin misnoti þessa tækni til þess að þykjast fylgja einhverjum umhverfisstefnum. Þetta gæti t.d. verið góður kostur á Íslandi vegna umhverfisvænnar raforku, en ég veit ekki um mörg önnur
lönd sem búa við sömu aðstæður og við. Þó er e.t.v. mögulegt að nota þennan möguleika til þess að geyma umframorku.
Eina leiðin sem virðist geta fullnægt okkar orkuþörfum er sólarorka, en hún er of dýr eins og er og getur ekki keppt við olíu og kol ef við viljum viðhalda vestrænum lifnaðarháttum. Efnafræðingar binda vonir við nokkuð sem mætti kallast "sólarorkumálning" og hrúgast inn á bandaríska þingið til þess að sannfæra
þingmenn um að styrkja rannsóknir á þessu sviði og hreinlega að reyna að fá þessa menn til þess að átta sig á e.t.v. einu stærsta vandamáli sem mannkynið hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir: Hvernig leysum við orkumál heimsins án þess að þurfa að fara út í áhættusömustu tilraun sem nokkurn tímann hefur verið framkvæmd á þessari plánetu; áframhaldandi losun ótæpilegs magns gróðurhúsaloftegunda?

Bestu kveðjur,
Hannes