18. jún. 2005

Háflóð, ísöld og aumingja Blair

Er að lesa góða bók sem heitir High Tide (Háflóð). Höfundurinn, Mark Lynas, hefur ferðast víðs vegar um heiminn og kynnt sér áhrif hlýrra loftslags á líf fólks. Hann hóf ferðina í Bretlandi þar sem hann varð vitni að mestu flóðum í manna minnum. Þar ræddi hann við fólk sem fannst engin tilbreyting lengur í veðrinu. Snjór sést varla lengur og þegar rignir þá kemur ofsalegt skýfall í skamman tíma og allt flæðir í kaf. Það er ekki langt síðan það voru flóð um alla Austur-Evrópu. Munstur eða tilviljun?
Síðan lagði hann land undir fót og ég er kominn á þann stað í bókinni sem hann ferðast um Alaska. Þar er sífreri að bráðna og þess vegna hrynur jörðin undan húsum og trjám. Heilu vötnin eru horfin vegna þess að þau smjúga núna niður í jarðveginn. Og það er sama sagan þar, snjóalög minnka með hverju árinu og hafís er á undanhaldi. Þetta finnst höfundi bókarinnar vera kaldhæðni örlaganna þar sem stærstu olíulindir Vesturlanda eru í Alaska. Heimamenn njóta þannig ávaxtanna af olíuiðnaðinum en verða líka fyrir barðinu á náttúruhamförunum sem olíubrennslan leiðir af sér. En heimamenn vilja ólmir halda áfram að bora eftir olíu þrátt fyrir allt og þeir fara fremstir í flokki þeirra sem vilja bora á friðuðum landsvæðum. Þar sem annars staðar er skjótfengur gróðu tekinn fram yfir náttúruvernd. Mark þessir hittir naglann á höfuðið þegar segir: ,,Economic development must march forward, whatever the weather."
Í fréttum Rúv var verið að segja frá því að nýjustu rannsóknir bendi til þess að golfstraumurinn stöðvist innan 200 ára vegna hlýnunar andrúmsloftsins og ísöld skelli á. Hlýnunin veldur því að hringrás Golfstraumsins stöðvast vegna þess að ferskvatn frá Grænlandsjökli rennur á haf út og raskar jafnvæginu sem knýr strauminn. Þór Jakobsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í viðtali við fréttastofuna að kólnunarskeiðið geti varað frá 50 og upp í 150 ár og ísaldarjökullinn gæti þakið allt landið og Skandinavíu.
Á sama tíma og heimsendaspár sem þessar birtast í fjölmiðlum er Tony Blair kominn í djúpan suður í Downing Street. Hann hefur sett sér háleit markmið fyrir G8 fundinn í Skotlandi í júlí og hefur boðað róttækar aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum. Bush er ekki par sáttur við bandamann sinn og neitar að dansa með. Þess vegna er líklegt að eitthvert innihaldslaust moð verði niðurstaða fundarins. Hvori verði ákveðin markmið sett né aðgerðir viðhafðar til að ná þeim. Drög að ályktun sem lak til fjölmiðla um daginn benda til þess að leiðtogar iðnríkjanna ætli ekki einu sinni nefna gróðurhúsaáhrifin beinum orðum.