1. jún. 2005

G8

Leiðtogar G8-ríkjanna ætla ekki að setja ákveðin takmörk við losun gróðurhúsalofttegunda á fundi sínum í Edinborg í sumar. Þetta kemur fram í stefnudrögum sem láku til fjölmiðla.
Tony Blair fer nú með formennsku í G8 og hann hefur sagst ætla að setja baráttu gegn loftslagsbreytingum á oddinn. Enda hafa breskir vísindamenn varað við áhrifum breytinganna. Það sem meira er að stjórnvöld þar í landi hafa tekið þá trúanlega á meðan starfsbræður þeirra í Bandaríkjunum þurfa nánast að þola nornaveiðar af hálfu Bush og félaga í Hvíta húsinu. Nú hafa þeir sem sagt náð að draga tennurnar úr Blair blessuðum og í ályktunum G8 fundarins verður næsta lítið gert úr loftslagsbreytingunum. Það verður líklega almennt orðað blaður um hvernig þróa þurfi nýja tækni og horfa svo bara bjartsýn til framtíðar. Ekki stafur um tafarlausar aðgerðir.
Annars á þessi G8 fundur eftir að verða merkilegur líkt og aðrir slíkir fundir, t.d. í Seattle og Genúa. Þúsundir manna mæta og krefjast aðgerða af hálfu iðnríkjanna vegna aðkallandi vandamála. 2. júlí verður t.d. mikil ganga um Edinborg þar sem vakin verður athygli á fátækt í Afríku og eyðnifaraldrinum.
Ég pantaði mér flug til Edinborgar í gær. Ætla að fylgjast með þessu og verða vitni að heimsviðburði. Vek athygli á heimasíðunni http://www.makepovertyhistory.org. Skoðið myndböndin á síðunni. Þetta með munaðarleysingjunum er ótrúlega áhrifaríkt.