13. apr. 2005

Græningjar í kosningaham

Þá eru breskir græningjar komnir í kosningaham fyrir þingkosningarnar 5. maí. Í stefnuskrá Græningjaflokksins er lögð áhersla á viðbrögð við loftslagsbreytingum. Þeir segja að Bretum stafi meiri ógn af þeim en hryðjuverkum.
Þeir vilja fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum og heilbrigðiskerfinu. Þeir ætla að afla fjár til þess með því að draga úr fyrirhuguðum vegaframkvæmdum, hætta kjarnorkuvopnaframleiðslu og hætta við að taka upp persónuskilríki í Bretlandi. Persónuskilríkin hafa verið á stefnuskrá stjórnar Verkamannaflokksins en það átti að kosta litla 3 milljarða punda að koma þeim í gagnið.
En það er á brattann að sækja fyrir breska Græningja. Þeir hafa aldrei átt fulltrúa á breska þinginu vegna kosningakerfisins sem hyglir stóru flokkunum tveimur á kostnað smáflokka. Þess vegna finnst kjósendum eins og þeir kasti atkvæði sínu á glæ með því að velja Græningja. Hvers konar lýðræði er það? En eins og talsmaður þeirra segir: ,,Eina leiðin til að kasta atkvæði sínu á glæ er að kjósa flokk sem maður trúir ekki á."

Nánar:
http://news.bbc.co.uk/1/hi/uk_politics/vote_2005/frontpage/4434125.stm