9. mar. 2005

Erfðabreyttur stormur í vatnsglasi

ORF-Líftækni vill fá bændur til að rækta erfðabreytt bygg á Íslandi. Umræðan um erfðabreytta ræktun hefur verið hávær víða úti í heimi. Menn óttast að erfðabreytt korn berist í akra og mengi náttúrulega uppskeru. Stóra spurningin er hins vegar hversu náttúrlega núverandi ræktun er. Ólafur Eggertsson, kornbóndi á Þorvaldseyri hefur t.d. rakið góða uppskeru til kynbóta sem unnar hafa verið á byggi síðustu ár.
Júlíus B. Kristinsson, framkvæmdastjóri ORF-Líftækni, segir rannsóknir ekki benda til að hætta sé á víxlverkun í náttúrunni með tilkomu erfðabreyttrar byggplöntu hérlendis. Hann segir umræðuna um verkefnið vera storm í vatnsglasi. Fyrirtækið vill nýta 6.000 hektara lands undir framleiðsluna en samkvæmt bonda.is sáðu kornbændur á landinu í um 3.000 hektara í fyrra. Þannig að þetta er stærðar verkefni.
Baldvin Jónsson, verkefnisstjóri hjá Bændasamtökunum, segir ímynd Íslands erlendis geta hlotið hnekki af þessu framtaki ORF-Líftækni. Ég get nú ekki annað en tekið undir með honum. Nú þegar erfðabreytt korn er að breyða sig út um allar koppagrundir þá held ég að grænni ímynd Íslands yrði ekki gert gott með því að hefja slíka ræktun hér. Landbúnaðurinn væri betur settur með því að vera laus við erfðabreytingar og halda þannig sérstöðu á markaðinum.

Allt um deiluna um erfðabreytt korn:
http://www.bbc.co.uk/dna/ican/A2418509