27. sep. 2002

Fáir neistar

,,Þú hefur bent á það áður, Jónas að í dag gangi illa að koma fólki saman á fund. … Almennur áhugi á stjórnmálum hefur verið gífurlegur á fyrstu tugum aldarinnar. Áhuginn var bara drepinn, sagði Jónas nokkuð snöggt. Hann þurfti aldrei að deyja. En hann var bara drepinn af þessum atvinnustjórnmálamönnum. Þeim dettur svo lítið í hug”. Svona birtist Jónas frá Hriflu í bók Indriða G. Þorsteinssonar; Samtöl við Jónas. Þetta eru sannleiksorð hjá karlinum og þótt hann hafi kannski verið hálf geggjaður á köflum, má fullyrða að hann hafi verið einn af þessum fáu stjórnmálamönnum sem hafði neistann. Þennan neista sem ,,þjóðunum veginn má lýsa/ til fegurra framtíðarlands” svo orð Tómasar séu færð í stílinn.

Í dag eigum við of fáa menn með neista og of marga atvinnustjórnmálamenn sem virðast staðráðnir í að drepa þann snefil af stjórnmálaáhuga sem enn býr í brjóstum hins almenna kjósanda. Hvernig má til dæmis vera, að mönnum hugnist að gera landið allt að einu kjördæmi. Hugmyndin er einfaldlega andlýðræðisleg og festir í sessi fámennar flokksklíkur sem færu þá með öll völd í flokkunum og þar með á Alþingi. Slíkt kjördæmafyrirkomulag kæmi í veg fyrir að fólk kysi þann sveitunga sinn sem það teldi hafa bestu þekkinguna á aðstæðum þess, þörfum og væntingum til lífsins. Þess í stað yrði það að velja sér eina flokksklíku á landslista fremur en aðra og almannavilji yrði gerður enn fjarlægari sölum Alþingis en hann er í dag og kjósendur sæu sífellt minni ástæðu til að kjósa. En klíkunum líður ágætlega með það að vera til sýnis í fjölmiðlunum og komast hjá persónulegum kynnum við kjósendur. Þeir treysta bara á að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla.

Aðrir stjórnmálamenn vilja fjarlægja valdið enn frekar frá almenningi með því að ganga í Evrópusambandið og láta fámennar klíkur sambandsins um að stjórna þessu fyrir okkur. Auk þess eru kontórar sambandsins þægilegir felustaðir fyrir orlofssjúka stjórnmálamenn. Ef skóinn kreppir að í íslensku samfélagi, er ekkert einfaldara fyrir Alþingismenn en að koma sér upp flóttamannabúðum í Brussel og ritararnir segja bara að því miður þá sé þingmaðurinn upptekinn á mikilvægri ráðstefnu um sjálfbæra samþættingu í Norðursjó. Og eftir sitjum við, algjörlega áhugalaus um þessa samþættingu í Norðursjó, en því áhugasamari um þessi 100 störf sem töpuðust þegar fyrirtækið í bænum fór á hausinn.

Fyrir skömmu las ég í einhverri Evrópuúttektinni eftirfarandi texta: ,,Stjórnsýslan þarf t.d. að fjölga starfsfólki og sérhæfa … Einnig þarf að koma á stofn nýjum sendiráðum, byggja upp deildir til að sinna Evrópumálum í tilteknum ráðuneytum”. Sem sagt fleiri andlitslausir kontóristar sem stjórnmálamennirnir geta falið sig á bakvið og enn lengist leiðin frá kjósandanum til stjórnmálamannsins. Valdið skal fært úr kjörklefanum og inn á kontórinn. Þetta eru góðar fréttir fyrir atvinnustjórnmálamennina í flokksklíkunum en slæmar fyrir þá sem hafa neistann. En þangað til að af þessu verður getum við yljað okkur við þá hugmynd að af litlum neista verður oft mikið bál.