7. júl. 2002

,,Frelsi þýðir ábyrgð. Það er þess vegna sem flestir menn óttast það”.

,,Frelsi þýðir ábyrgð. Það er þess vegna sem flestir menn óttast það”.

Tilvitnunin er í G. B. Shaw. Árið 1894 skrifaði hann leikritið Mrs. Warren´s profession til að beina athygli samborgara sinna að því að siðspilling kvenna væri ekki orsök vændis, heldur væri hana að finna í félagslegu og efnahagslegu óréttlæti þess tíma. Nú, rúmri öld síðar, eru menn enn að dunda sér við að finna upp hjólið. Nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins, sem var falið að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis komst að þeirri niðurstöðu að grunnur vændis lægi einkum í: ,,fíkniefnaneyslu, bágum aðstæðum eða jafnvel fátækt og kynferðislegri misnotkun og ofbeldi, svo og andlegri og líkamlegri niðurlægingu, vanlíðan og vanheilsu”. Rómverski keisarinn Markús Árelíus var líka búinn að botna þessa speki tæpum tvöhundruð árum eftir kristsburð þegar hann sagði fátæktina vera móður allra glæpa.

Þá vitum við það. Vændiskonur eru ekki vændiskonur vegna siðferðislegs vanþroska eða óvenju mikils blygðunarleysis og þær eru ekki ,,gleðikonur” vegna þess að þær hafi gaman af þessari iðju (legg til að við notum orðið niðurlægjur í stað gleðikonur, það lýsir frekar eðli starfsins og leiðir til eðlilegri hugrenningatengsla). Þvert á móti. Vændi er afleiðing – fátækt, fíkniefnaneysla og ofbeldi eru orsakir. Og hver hefur þá drýgt glæpinn? Hver ber ábyrgð á orsok glæpsins? Ætli það séu ekki við sjálf, við sem höfum skapað okkur samfélag þar sem fólk neyðist til að fjármagna fíkniefnakaup með vændi, þar sem heimili splundrast vegna áfengisneyslu og fátæktar, þar sem uppeldi barnanna er svo bágborið að yfir þau gengur kynlífsvæðingarbylgja, við sem erum tilbúin til að nýta okkur fátækt og harm annara þjóða til þess að framkvæma okkar eigin ,,kynlífsbyltingu”.

Er þá ekki kominn tími til að við drögum víglínurnar á öðrum stöðum og réttum þeim sem af einhverjum ástæðum misstíga sig í hörðum heimi hjálparhönd, í stað þess að ýta þeim með boðum og bönnum sífellt dýpra niður í skuggalega undirheima, þar sem siðspilltar skepnur ráða ríkjum? Áðurnefnd skýrsla dómsmálaráðuneytisins er kannski fyrsta skrefið í þá átt.

En samfélagslegur fróðleikur Markúsar Árelíusar sem minnst var á áðan nær ekki aðeins til vændis heldur einnig fíkniefnaneyslu. ,,Stríðið gegn fíkniefnum hefur í raun skapað annað stríð en það er stríð lögregluyfirvalda gegn minnihlutahópum litaðra kynþátta og hverfum undirmálshópa samfélagsins”. Þannig lýsir dr. Helgi Gunnlaugsson afleiðingum þess ,,stríðs” sem bandarísk stjórnvöld hafa háð gegn fíkniefnum undanfarna áratugi, stríðs sem hefur síður en svo dregið úr notkun fíkniefna. Mörg ríki í Evrópu hafa áttað sig á þessu og á nýlegu þingi Evrópuráðsins var lögð fram skýrsla sem leiddi í ljós að engin tengsl hafa komið í ljós á milli tíðni eiturlyfjaneyslu í ákveðnu landi og þess hversu hörð viðurlög eru þar við fíkniefnabrotum. Í framhaldi af þessu var lagt til í skýrslunni að tekið yrði af meiri skilningi á þeim sem neyta fíkniefna, fremur en að dæma þá til fangelsisvistar. Það virðast því gild rök hníga að því að boð og bönn dugi ekki í baráttunni við að draga úr fíkniefnaneyslu en ýti þess í stað undir félagsleg vandamál undirmálshópa. Greinileg þróun í frjálsræðisátt hefur átt sér stað að undanförnu í Evrópu, fyrst í Hollandi, síðar í Sviss og nú hyllir undir breytingar í Bretlandi. Ýmsar rannsóknir benda til þess að slík þróun auki hvorki neyslu efnanna né glæpum þeim tengdum. Þessi frjálsræðisþróun teygir anga sína til Íslands því að á landsfundi Samfylkingarinnar árið 2001 var samþykkt ályktun sem miðar að því að taka á minniháttar fíkniefnabrotum með vægari hætti.

Að mörgu leiti tónar margt úr skýrslu dómsmálaráðuneytisins um vændi við umræðuna um fíkniefnavandann. Í henni segir m.a.: ,,Hér á heldur ekki að beita svokölluðum skyndilausnum. Miklu nær væri að líta svo á að um langtímaviðfangsefni sé að ræða”. Átakið ,,fíkniefnalaust Ísland” er líklega eitt skoplegasta dæmi um skyndilausnir sem íslenskum stjórnmálamönnum hefur flogið í hug en um leið það sorglegasta. Einnig segir í skýrslunni: ,,Leggja verður áherslu á að ráðist verði að rót vandans. Þess vegna er brýnt að byrjað verði á að upplýsa og skilgreina hver rótin er”. Þeir sem lenda í alvarlegum félagslegum vanda tengdum fíkniefnum og vændi hafa einfaldlega ekki tök á því að kynna sér þau boð og bönn sem eru í gildi. Sjálfsbjargarviðleitnin er það eina sem gildir hjá fólki í slíkri aðstöðu, markmiðið verður að þrauka næstu daga og þá er ekki spurt að afstöðu yfirvalda eða þyngd viðurlaga. Þessu fólki verður ekki hjálpað með því að banna iðju þess, heldur verður það best gert með því að skapa því félagslegar aðstæður sem koma í veg fyrir að fólk neyðist út í slíka starfsemi. Norm löggjafans nær ekki til þeirra þjóðfélagshópa sem eru líklegastir til að brjóta þau lög sem hér um ræðir. Margir af áhrifamestu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar hlutu pólitískt uppeldi í ungmenna- og bindindisfélögum og ólust upp við allt önnur gildi en þau sem tíðkast í dag. Þeirra hugmyndir eru enn of ríkjandi í íslensku samfélagi.

Heimspekingurinn Richard Rorty sagði að í stjórnmálum ættu menn að vera frjálslyndir og forðast öfgakennda gagnrýni á grundvelli persónulegrar lífsspeki. Þetta er með þyngstu sannleikskornum sem ég hef heyrt. Vandamál flókinna nútímasamfélaga verða varla leyst með einstrengingslegum tilskipunum, þau verða miklu frekar leyst með samvinnu og fræðslu. Það er að mínu mati hin eina raunsæja leið sem hægt er að feta og því er ég mótfallinn því að ríkið banni vændi og fíkniefni. Ríkið á að ,,afglæpa” þessi félagstengdu afbrot.

Nora Storm er í forsvari samtaka fíkla í Rotterdam í Hollandi. Hún neytir sjálf ekki fíkniefna en hefur raunsætt viðhorf til þeirra er neyta þeirra, en hún segist eiga þá einu lífsreglu: ,,að sætta sig við það sem fólk gerir, því aðeins þá sé hægt að vinna með því”. Nora Storm er manneskja sem þorir að taka á frelsinu með ábyrgð.