14. maí 2002

Þjóðin og kylfan

Á Hagatorgi í dag frumflytja íslenskir herstöðvaandstæðingar í samvinnu við Ríkislögreglustjórann, nýjan íslenskan skopleik. Höfundur verksins er íslenska þjóðin en með helstu hlutverk fara Geir Jón Þórisson sem leikur illgjarna lögregluforingjann, Birna Þórðardóttir sem leikur andsamfélagslegan pungasprengi, Stefán Pálsson fer með hlutverk friðarhöfðingjans og Erpur Eyvindarson leikur uppreisnagjarna ofurhugann.

Í stuttu máli fjallar sýningin um yfirgangssama auðjöfra sem senda álkulega og orðuprýdda hershöfðingja sína til NATO fundar á hinu fagra Íslandi, þar sem ætlunin er að staðfesta hernaðarlega og efnahagslega yfirburði norðurþjóðanna yfir skrælingjaþjóðunum í suðri. Þrátt fyrir að flestir íbúar eyjunnar fögru efist um siðferðilegt ágæti gesta sinna, þá una þeir engu að síður glaðir við sitt, enda fara þeir flestir saddir í háttinn, fullvissir um það að loftárásir, viðskiptaþvinganir, hungursneyðir og þrælakjör séu vandamál suðurhvelsins en ekki þeirra. Þeir leyfa sér að gleðjast yfir því að vera í vinningsliðinu. En þá rís upp fámennur hópur andófsmanna sem neitar að una glaður við sitt og efnir til mótmælastöðu við víggirt Hagatorgið. Hámarki nær leikurinn þegar Halldór Ásgrímsson, horfir ofan úr Grillinu á Sögu fullur vandlætingar, á þau Birnu, Stefán og Erp og muldrar orð skálds söddu borgarastéttarinnar:

,,Sumir leita þess alla ævi,
sem aðra bindur í hlekki.
Á harmanna náðir þau hjörtu flýja,
sem hamingjan nægir ekki”.

Að svo búnu sendir hann Geir Jóni sms-skeyti og óeirðasveitirnar eru settar í viðbragðsstöðu. Aga verður viðhaldið með kylfum ef nauðsyn krefur. Birna er farin að henda fúleggjum og torfusneplum að vopnuðum leyniþjónustumanni úr bandaríska hernum og Erpur seilist eftir einhverju sem hann hefur hulið innanklæða. Hvað gerist næst? Er Erpur vopnaður bensínsprengju? Verður Birna dreginn á brott og vistuð með afgönskum hryðjuverkamönnum á Kúbu? Eða mun hún sparka í punginn á Geir Jóni? Mun punghlíf Geir Jóns standast átökin? Verður blaðasnápurinn Árni Snævar flengdur af Geir Jóni? Munu hvítliðasveitir vopnaðra Heimdellinga skerast í leikinn? Verður Stefán tekinn í dýrlingatölu kaþólsku kirkjunnar? Fara Powell og Ivanov á gott fyllerí saman? Er ungum börnum holt að deyja á spjótsoddum? Ætlaði dátinn að skjóta pabba litlu svarteygðu stúlkunnar?

Allt þetta og miklu meira á Hagatorgi klukkan 17:00 í dag. Allir velkomnir.